Fastir pennar

Freistingum pólitíkusa fækkað

Ólafur Þ. Stephensen skrifar
Uppbyggingu þorskstofnsins á síðustu árum og sterka stöðu hans nú má ekki sízt þakka aflareglunni, sem fyrst var tekin upp árið 1995 og er í sinni síðustu útgáfu nokkurn veginn á þá leið að ekki skuli veiða meira en fimmtung af þorski eldri en fjögurra ára, að því gefnu að hrygningarstofninn haldist í 220.000 tonnum eða yfir.

Jóhann Sigurjónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar spáði því þegar kynntar voru tillögur stofnunarinnar um að auka þorskaflann upp í 177.000 tonn á næsta fiskveiðiári að heildarkvóti í þorski gæti farið upp í allt að 250.000 tonnum árið 2016. Það yrði væn búbót fyrir þjóðarbúið.

Undanfarin ár hafa sjávarútvegsráðherrar staðizt þrýsting frá hagsmunaaðilum um að auka þorskkvótann umfram aflaregluna. Það er rétt og ábyrg afstaða, sem er byrjuð að skila árangri og mun gera það áfram til framtíðar.

Hins vegar hafa ráðherrarnir notað aðra stofna sem skiptimynt og leyft veiði umfram ráðgjöf Hafró til að sætta hagsmunaaðila í sjávarútveginum við aðhaldið í þorskveiðum. Sérstaklega hafa ýsa og ufsi farið illa út úr þessum hrossakaupum. Menn hafa væntanlega hugsað sem svo að þar væru minni hagsmunir í húfi en í þorskinum, færi svo að þessir stofnar yrðu ofveiddir.

Það blasti út af fyrir sig við að þessu væri ekki hægt að halda áfram til langframa; það myndi koma niður á minni nytjastofnum sem þó eru ekki síður mikilvægir en þorskurinn þegar á heildina er litið. Ástandið á ýsustofninum er nú orðið mjög alvarlegt og Hafró útilokar ekki að setja þurfi algjört veiðibann á ýsu.

Stofnunin hefur nú lagt fram tillögur um nýtingarstefnu og aflareglu fyrir ýsu, eins og fjallað var um í Fréttablaðinu síðastliðinn laugardag. Reglan sem er lögð til er með öðrum hætti en í þorskinum; Hafró vill láta veiða 40% af ýsu sem er 45 sentímetrar og stærri. Þessa reglu segir Jóhann Sigurjónsson „standast allar ýtrustu kröfur um sjálfbærni og varúðarsjónarmið. Eins að hún gefi hámarksafrakstur til langs tíma litið."

Í undirbúningi er sömuleiðis aflaregla fyrir ufsann. Hafró mælir með sams konar reglu og fyrir þorskinn til að ná hámarksafrakstri úr stofninum til lengri tíma litið.

Það er jákvæð þróun að setja aflareglur fyrir sem flesta af nytjastofnum sjávar við Ísland. Þær þarf að sjálfsögðu að ræða á sem breiðustum grundvelli, þannig að bæði stjórnvöld og þeir sem hafa hagsmuni af því að nytja sjávarauðlindina hafi sem beztan skilning á gildi þeirra og sæmileg sátt ríki um að beita þeim.

Kjarni málsins er að nýtingarstefna og aflareglur fyrir einstaka fiskistofna draga úr freistingum stjórnmálamanna að hunza ráðgjöf vísindamanna og leyfa of mikinn afla til að ná skammtímamarkmiðum. Við þurfum ekki að horfa langt út fyrir landsteinana til að sjá skelfilegar afleiðingar þess að pólitíkusarnir geta ekki staðizt þrýsting hagsmunaaðila. Hér á landi eiga menn orðið að vita betur.






×