Loðin höfuðborg 11. júlí 2012 06:00 Margir Reykvíkingar ergja sig þessa dagana á því hvernig borgarstjórninni virðist fyrirmunað að halda umferðareyjum og opnum svæðum víða um borgina sæmilega snyrtilegum. Órækt er eina orðið sem hægt er að nota yfir gras- og illgresisvöxtinn sem víða blasir við. Borgin gefur þá skýringu að verið sé að spara og þess vegna sé sjaldnar slegið en áður. Það er reyndar ekki eina skýringin, þannig hafa tals- og fylgismenn borgarstjórnarmeirihlutans gefið til kynna að hátt gras, njóli, fíflar og annað illgresi sé beinlínis fallegt og eiginlega hafi alla tíð verið misráðið að slá borgarlandið svona ótt og títt á sumrin. Sparnaðarröksemdin er auðvitað gild; það er úr minna að spila en áður. Samt er það nú svo að þrátt fyrir niðurskurð í nágrannasveitarfélögunum virðist ekki vera þeim ofviða að halda opnum svæðum snyrtilegum. Það er mikill munur á umhirðunni í Reykjavík og í bæjunum sem eru samvaxnir henni; sums staðar svo að það er nánast sársaukafullt að horfa yfir borgarmörkin. Við viljum að borgin sé falleg og vel hirt. Þar þarf hver og einn auðvitað að leggja sitt af mörkum. Eigendum húsa og lóða ber samkvæmt lögum og reglugerðum skylda til að halda eignum sínum snyrtilegum. Flestir leggja sig fram við garðsláttinn og þeir sem trassa hann eru réttilega litnir hornauga af nágrönnum sínum. Í lögreglusamþykktum og reglugerðum eru ákvæði sem eiga að hamla gegn órækt. Og hverjum er þar falið að hafa eftirlit með skerðingu gróðurs og snyrtimennsku og setja um hana nánari reglur? Jú, sveitarfélögunum. Hvernig á borgin að geta sinnt því eftirlitshlutverki sínu og verið góð fyrirmynd ef hún lætur svæðin sem hún á sjálf að hirða drabbast niður? Það er erfitt að finna höfuðborg, sem er jafnloðin og Reykjavík hefur verið í sumar og fyrrasumar. Víðast hvar leggja stjórnvöld í höfuðborgum – og bara borgum yfirleitt – metnað sinn í að hafa opin svæði snyrtileg og aðgengileg. Ekki einu sinni í höfuðborgum þriðjaheimsríkja, þar sem fjárráðin eru minni en í Reykjavík, er illgresið jafnhátt og í höfuðborg Íslands. Þar er reyndar skýringin oft sú að búfé gengur laust meðfram götunum og sér um að snyrta gróðurinn. (Líklega er hættulegt að setja svona lagað á blað; borgarstjórnarmeirihlutinn gæti fengið fleiri „villtar" hugmyndir við lesturinn.) Þegar þolinmæði borgarbúa yfir óræktinni var á þrotum um þetta leyti í fyrrasumar, sendi borgin frá sér tilkynningu þar sem sagði: „Reykjavíkurborg hyggst skoða hvernig minnka má tún í borginni. Í stað mikilla grasflæma kæmu svæði með sjálfbærum plöntum sem sleppa minna af frjókornum út í andrúmsloftið. Markmiðið er að draga úr frjókornamagni, fegra umhverfið og minnka kostnað vegna grassláttar." Þetta er alveg sjónarmið. En það er líka dýrt að skipta um gróður á stórum svæðum. Og þangað til búið er að gera það, þarf einfaldlega að slá grasið og halda því snyrtilegu. Borgaryfirvöld eiga að hætta þessum fyrirslætti og snúa sér að slættinum, þannig að Reykvíkingar geti hætt að skammast sín fyrir borgina sína. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Ólafur Stephensen Skoðanir Mest lesið Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Forréttindablinda strákanna í Viðskiptaráði Sonja Ýr Þorbergsdóttir Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun
Margir Reykvíkingar ergja sig þessa dagana á því hvernig borgarstjórninni virðist fyrirmunað að halda umferðareyjum og opnum svæðum víða um borgina sæmilega snyrtilegum. Órækt er eina orðið sem hægt er að nota yfir gras- og illgresisvöxtinn sem víða blasir við. Borgin gefur þá skýringu að verið sé að spara og þess vegna sé sjaldnar slegið en áður. Það er reyndar ekki eina skýringin, þannig hafa tals- og fylgismenn borgarstjórnarmeirihlutans gefið til kynna að hátt gras, njóli, fíflar og annað illgresi sé beinlínis fallegt og eiginlega hafi alla tíð verið misráðið að slá borgarlandið svona ótt og títt á sumrin. Sparnaðarröksemdin er auðvitað gild; það er úr minna að spila en áður. Samt er það nú svo að þrátt fyrir niðurskurð í nágrannasveitarfélögunum virðist ekki vera þeim ofviða að halda opnum svæðum snyrtilegum. Það er mikill munur á umhirðunni í Reykjavík og í bæjunum sem eru samvaxnir henni; sums staðar svo að það er nánast sársaukafullt að horfa yfir borgarmörkin. Við viljum að borgin sé falleg og vel hirt. Þar þarf hver og einn auðvitað að leggja sitt af mörkum. Eigendum húsa og lóða ber samkvæmt lögum og reglugerðum skylda til að halda eignum sínum snyrtilegum. Flestir leggja sig fram við garðsláttinn og þeir sem trassa hann eru réttilega litnir hornauga af nágrönnum sínum. Í lögreglusamþykktum og reglugerðum eru ákvæði sem eiga að hamla gegn órækt. Og hverjum er þar falið að hafa eftirlit með skerðingu gróðurs og snyrtimennsku og setja um hana nánari reglur? Jú, sveitarfélögunum. Hvernig á borgin að geta sinnt því eftirlitshlutverki sínu og verið góð fyrirmynd ef hún lætur svæðin sem hún á sjálf að hirða drabbast niður? Það er erfitt að finna höfuðborg, sem er jafnloðin og Reykjavík hefur verið í sumar og fyrrasumar. Víðast hvar leggja stjórnvöld í höfuðborgum – og bara borgum yfirleitt – metnað sinn í að hafa opin svæði snyrtileg og aðgengileg. Ekki einu sinni í höfuðborgum þriðjaheimsríkja, þar sem fjárráðin eru minni en í Reykjavík, er illgresið jafnhátt og í höfuðborg Íslands. Þar er reyndar skýringin oft sú að búfé gengur laust meðfram götunum og sér um að snyrta gróðurinn. (Líklega er hættulegt að setja svona lagað á blað; borgarstjórnarmeirihlutinn gæti fengið fleiri „villtar" hugmyndir við lesturinn.) Þegar þolinmæði borgarbúa yfir óræktinni var á þrotum um þetta leyti í fyrrasumar, sendi borgin frá sér tilkynningu þar sem sagði: „Reykjavíkurborg hyggst skoða hvernig minnka má tún í borginni. Í stað mikilla grasflæma kæmu svæði með sjálfbærum plöntum sem sleppa minna af frjókornum út í andrúmsloftið. Markmiðið er að draga úr frjókornamagni, fegra umhverfið og minnka kostnað vegna grassláttar." Þetta er alveg sjónarmið. En það er líka dýrt að skipta um gróður á stórum svæðum. Og þangað til búið er að gera það, þarf einfaldlega að slá grasið og halda því snyrtilegu. Borgaryfirvöld eiga að hætta þessum fyrirslætti og snúa sér að slættinum, þannig að Reykvíkingar geti hætt að skammast sín fyrir borgina sína.