Kærir Ögmundur sig einn ekki kollóttan? Þorsteinn Pálsson skrifar 28. júlí 2012 06:00 Frá siðferðilegu sjónarmiði er til lengri tíma litið brýnast að treysta lýðræðislega innviði samfélagsins og styrkja stjórnkerfið; bæta þarf viðskiptasiðferði, stjórnsiði og vinnulag, efla fagmennsku og siðferðisvitund." Þessi setning er tekin úr lokaniðurstöðu þess hluta skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem sérstaklega fjallaði um siðferði og starfshætti í tengslum við fall bankanna 2008. Skýrslan seldist í stóru upplagi og í hana var vitnað í nokkra mánuði eins og trúarbókstaf. Síðan ekki söguna meir. Nú er eins og enginn hafi heyrt þessarar skýrslu getið og trúarhitinn er kulnaður. Frásagnir fjölmiðla síðustu mánuði um ráðstöfun Grímsstaða á Fjöllum til fjárfestis frá Kína gefa efni til að spyrja hvort þeir hlutir eigi að ganga fram eins og sagt er. Málið er tvíþætt. Annars vegar snýst það um kaup á stóru landi. Hins vegar lítur það að áformum um atvinnusköpun. Þó að þættirnir tengist óhjákvæmilega þarf eigi að síður að svara spurningum sjálfstætt um hvorn þeirra um sig. Hvers vegna eru reglur um fjárfestingu útlendinga á landi eins og þær eru? Er hægt að fara í kringum þær? Viljum við það? Réttlæta áform um atvinnusköpun að það sé gert? Með öðrum orðum: Getum við verið viss um að það sem hér er að gerast feli í sér bót á viðskiptasiðferði, stjórnsiðum og vinnulagi? Má vera að í röðum valdhafa sé Ögmundur Jónasson einn um að kæra sig ekki kollóttan hvernig þessum spurningum er svarað? Leppsveitarstjórnir Þegar sköpun nýrra atvinnutækifæra er nefnd í tengslum við þessi áform teygja menn lopann frá golfi til olíuhreinsunar. Hvort tveggja er virðingarverð starfsemi og fengur væri að erlendu fjármagni til uppbyggingar á þessum sviðum. En hvorugt þetta er kjarninn í þessari umræðu. Fyrstu áform kínverska fjárfestisins voru þau að kaupaGrímsstaði á Fjöllum. Þá kemur í ljós að íslensk lög heimila ekki slík kaup útlendinga nema þeir búi á evrópska efnahagssvæðinu. Innanríkisráðherra getur þó veitt undanþágu frá þeirri reglu. Hann hafnaði því með rökum sínum. Næsti leikur er að sveitarfélögin kaupi jörðina og leigi Kínverjanum. Hann greiðir leiguna fyrirfram. Sveitarstjórnir á svæðinu ætla einfaldlega að leppa kaupin til að skapa atvinnu. Þær eru leppsveitastjórnir. Er það bót á stjórnsiðum? Skilyrðið fyrir þessu öllu saman er að iðnaðarráðherra veiti sérstaka fyrirgreiðslu sem lög heimila að hann geri þegar erlendir fjárfestar eiga í hlut. En telst það bót á stjórnsiðum að taka ákvörðun af því tagi þegar fyrir liggur að málið allt byggist á leppmennsku? Sumir eru hlynntir olíuhreinsun. Aðrir sjá allt svart þegar hún er nefnd. Hvorugt sjónarmiðið á að ráða þegar meta á hvort fara á að lögum um erlenda fjárfestingu. Sumir hlæja þegar golfiðkun á Fjöllum er nefnd á nafn. Aðrir virða áræðið. Hvorugt sjónarmiðið á hins vegar að ráða því hvort farið er að lögum.Hvernig eiga lögin að vera? Öll þessi umræða vekur eðlilega þá spurningu hvort lögin um fjárfestingu útlendinga séu eins og við viljum hafa þau. Um það eru sjálfsagt skiptar skoðanir. En flestir ættu að vera sammála um að þær reglur sem gilda um útlendinga utan evrópska efnahagssvæðisins eru ófullkomnar. Það merkilega er að hvorki ríkisstjórnin né stjórnarandstaðan hafa notað þetta mál til að kynna lagaúrbætur á þessu sviði. Trúlega einblína menn um of á þetta einstaka mál til að geta rætt almennt hvernig reglurnar eiga að vera. Þær þurfa líka að falla að stefnu okkar um samvinnu við aðrar þjóðir. Það flækir málið. Kjarni málsins er sá að reglurnar eru of þröngar og undanþágur byggja um of á frjálsu mati eða geðþótta. Eðlilegt væri að rýmka reglurnar vegna þess að peningar utan evrópska efnahagssvæðisins eru ekki í eðli sínu verri en evrópskir. Hitt er annað að um leið væri skynsamlegt að binda erlenda fjárfestingu á landi skilyrðum um búsetu á Íslandi og að hún hafi staðið í tiltekinn tíma áður en kaup eru gerð. Jafnframt er rétt að binda þennan rétt því skilyrði að hann sé gagnkvæmur milli Íslands og þeirra ríkja sem í hlut eiga hverju sinni. Svo eru auðvitað þeir sem eru alfarið andvígir erlendri fjárfestingu. Þeir hljóta að tefla rökum sínum fram. En hitt er óverjandi að láta löggjöfina standa óbreytta. Ábyrgðin hvílir á ríkisstjórninni. Siðalögmál peninganna á að vera eitt og það sama hvað sem þeir heita. Peningar eru í besta falli hlutlausir gagnvart siðferði. Það er því viðfangsefni samfélagsins að ákveða eftir hvaða siðalögmálum þeir eiga að streyma. Það á ekki að vera stjórn landsins ofviða. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Aðför að réttindum verkafólks Aðalsteinn Árni Baldursson Skoðun Takk Björgvin Njáll, eða þannig Ólafur Þór Ólafsson Skoðun Vilja Ísland í evrópskt sambandsríki Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Veðurstofa Sjálfstæðisflokksins frestar fundi Daníel Hjörvar Guðmundsson Skoðun Halldór 28.12.2024 Halldór Ísland er ekki stjórntækt með verðtryggingu? Örn Karlsson Skoðun Orkuverð og sæstrengir Anna Sofía Kristjánsdóttir Skoðun Er sjávarútvegur einkamál kvótakónga? Finnbjörn A. Hermannsson Skoðun Ó Palestína Arnar Eggert Thoroddsen Skoðun „Þetta er algerlega galið“ Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun
Frá siðferðilegu sjónarmiði er til lengri tíma litið brýnast að treysta lýðræðislega innviði samfélagsins og styrkja stjórnkerfið; bæta þarf viðskiptasiðferði, stjórnsiði og vinnulag, efla fagmennsku og siðferðisvitund." Þessi setning er tekin úr lokaniðurstöðu þess hluta skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem sérstaklega fjallaði um siðferði og starfshætti í tengslum við fall bankanna 2008. Skýrslan seldist í stóru upplagi og í hana var vitnað í nokkra mánuði eins og trúarbókstaf. Síðan ekki söguna meir. Nú er eins og enginn hafi heyrt þessarar skýrslu getið og trúarhitinn er kulnaður. Frásagnir fjölmiðla síðustu mánuði um ráðstöfun Grímsstaða á Fjöllum til fjárfestis frá Kína gefa efni til að spyrja hvort þeir hlutir eigi að ganga fram eins og sagt er. Málið er tvíþætt. Annars vegar snýst það um kaup á stóru landi. Hins vegar lítur það að áformum um atvinnusköpun. Þó að þættirnir tengist óhjákvæmilega þarf eigi að síður að svara spurningum sjálfstætt um hvorn þeirra um sig. Hvers vegna eru reglur um fjárfestingu útlendinga á landi eins og þær eru? Er hægt að fara í kringum þær? Viljum við það? Réttlæta áform um atvinnusköpun að það sé gert? Með öðrum orðum: Getum við verið viss um að það sem hér er að gerast feli í sér bót á viðskiptasiðferði, stjórnsiðum og vinnulagi? Má vera að í röðum valdhafa sé Ögmundur Jónasson einn um að kæra sig ekki kollóttan hvernig þessum spurningum er svarað? Leppsveitarstjórnir Þegar sköpun nýrra atvinnutækifæra er nefnd í tengslum við þessi áform teygja menn lopann frá golfi til olíuhreinsunar. Hvort tveggja er virðingarverð starfsemi og fengur væri að erlendu fjármagni til uppbyggingar á þessum sviðum. En hvorugt þetta er kjarninn í þessari umræðu. Fyrstu áform kínverska fjárfestisins voru þau að kaupaGrímsstaði á Fjöllum. Þá kemur í ljós að íslensk lög heimila ekki slík kaup útlendinga nema þeir búi á evrópska efnahagssvæðinu. Innanríkisráðherra getur þó veitt undanþágu frá þeirri reglu. Hann hafnaði því með rökum sínum. Næsti leikur er að sveitarfélögin kaupi jörðina og leigi Kínverjanum. Hann greiðir leiguna fyrirfram. Sveitarstjórnir á svæðinu ætla einfaldlega að leppa kaupin til að skapa atvinnu. Þær eru leppsveitastjórnir. Er það bót á stjórnsiðum? Skilyrðið fyrir þessu öllu saman er að iðnaðarráðherra veiti sérstaka fyrirgreiðslu sem lög heimila að hann geri þegar erlendir fjárfestar eiga í hlut. En telst það bót á stjórnsiðum að taka ákvörðun af því tagi þegar fyrir liggur að málið allt byggist á leppmennsku? Sumir eru hlynntir olíuhreinsun. Aðrir sjá allt svart þegar hún er nefnd. Hvorugt sjónarmiðið á að ráða þegar meta á hvort fara á að lögum um erlenda fjárfestingu. Sumir hlæja þegar golfiðkun á Fjöllum er nefnd á nafn. Aðrir virða áræðið. Hvorugt sjónarmiðið á hins vegar að ráða því hvort farið er að lögum.Hvernig eiga lögin að vera? Öll þessi umræða vekur eðlilega þá spurningu hvort lögin um fjárfestingu útlendinga séu eins og við viljum hafa þau. Um það eru sjálfsagt skiptar skoðanir. En flestir ættu að vera sammála um að þær reglur sem gilda um útlendinga utan evrópska efnahagssvæðisins eru ófullkomnar. Það merkilega er að hvorki ríkisstjórnin né stjórnarandstaðan hafa notað þetta mál til að kynna lagaúrbætur á þessu sviði. Trúlega einblína menn um of á þetta einstaka mál til að geta rætt almennt hvernig reglurnar eiga að vera. Þær þurfa líka að falla að stefnu okkar um samvinnu við aðrar þjóðir. Það flækir málið. Kjarni málsins er sá að reglurnar eru of þröngar og undanþágur byggja um of á frjálsu mati eða geðþótta. Eðlilegt væri að rýmka reglurnar vegna þess að peningar utan evrópska efnahagssvæðisins eru ekki í eðli sínu verri en evrópskir. Hitt er annað að um leið væri skynsamlegt að binda erlenda fjárfestingu á landi skilyrðum um búsetu á Íslandi og að hún hafi staðið í tiltekinn tíma áður en kaup eru gerð. Jafnframt er rétt að binda þennan rétt því skilyrði að hann sé gagnkvæmur milli Íslands og þeirra ríkja sem í hlut eiga hverju sinni. Svo eru auðvitað þeir sem eru alfarið andvígir erlendri fjárfestingu. Þeir hljóta að tefla rökum sínum fram. En hitt er óverjandi að láta löggjöfina standa óbreytta. Ábyrgðin hvílir á ríkisstjórninni. Siðalögmál peninganna á að vera eitt og það sama hvað sem þeir heita. Peningar eru í besta falli hlutlausir gagnvart siðferði. Það er því viðfangsefni samfélagsins að ákveða eftir hvaða siðalögmálum þeir eiga að streyma. Það á ekki að vera stjórn landsins ofviða.