Tónlist

Glimmerskreytt geðveiki

Rafpoppararnir í Passion Pit sendu frá sér aðra breiðskífu sína á dögunum en hafa þurft að aflýsa tónleikum vegna slæmrar geðheilsu söngvarans.

Bandaríska rafskotna poppsveitin Passion Pit sendi frá sér aðra breiðskífu sína, Gossamer, þann 24. júlí og fylgir nú plötunni eftir með tónleikaferð. Þeir hafa þó þurft að aflýsa nokkrum tónleikum, þar á meðal í dag og undanfarna tvo daga, vegna slæmrar geðheilsu Michael Angelakos, söngvara sveitarinnar. Var hann meðal annars lagður inn á sjúkrahús fyrir skemmstu. Tónlistarvefsíðan Pitchfork fjallaði náið um málið og sagði 25 ára söngvarann hafa barist við geðhvarfasýki frá átján ára aldri og að hún hefði ágerst eftir skyndilega frægð Passion Pit með fyrstu breiðskífu sinni. Með þessa þekkingu í farteskinu geta hlustendur skilið betur togstreituna sem ríkir í tónum sveitarinnar, þar sem gleðitónar mæta þungum hugsunum. Söngvarinn mun þrátt fyrir allt stíga á svið á morgun og vonandi í framhaldinu á ferð um heiminn út árið.

Meðal umfjöllunarefna glimmerskreyttra tónsmíða Gossamer eru áfengisfíkn, sjálfsmorð, geðveiki, fíkniefni, innflutningur fólks og efnahagslegur mismunur fólks. Sem sagt létt og hresst rafpopp með alvörugefnum textum og dimmum undirtóni.

Gossamer fylgir fyrri breiðskífu hljómsveitarinnar Manners. Sú kom út fyrir þremur árum og kom sveitinni á kortið á heimsvísu. Upphaf hljómsveitarinnar er með ótrúlegasta móti og má rekja til demóa sem söngvarinn samdi fyrir þáverandi kærustu sína og gaf í Valentínusargjöf í stað súkkulaðihjarta eða rósabúnta. Ekki leið svo á löngu þar til þau náðu eyrum bloggara og umfangsmikilla umboðsskrifstofa árið 2008.

Hljómsveitin var á þessum tíma eins manns sveit með ferðatölvu eða þar til núverandi hljómsveitarmeðlimurinn Ian Hultquist kom upp að Angelakos á lágstemmdum tónleikum hans í Boston og stakk upp á samstarfi sem nú samanstendur af þeim Ayad Al Adhamy, Jeff Apruzzese og Nate Donmoyer ásamt fyrrnefndum.

Þrátt fyrir þriggja ára bið eftir nýrri breiðskífu og slæma geðheilsu hefur Angelakos verið iðinn við kolann og unnið með Usher og Nelly Furtado ásamt því að vera eftirsóttur af poppfyrirbærum á borð við Britney Spears. Tónlistin hans hljómar í umtalaðri lokamynd Twilight-seríunnar, sem verður frumsýnd á árinu. Frægðarsól Of Monsters and Men hefur ekki farið framhjá Passion Pit sem endurhljóðblandaði smellinn Little Talks nýverið og fer Nanna Bryndís Hilmarsdóttir söngkona íslensku sveitarinnar fögrum orðum um endurhljóðblönduna í viðtali við tónlistartímaritið Rolling Stones og sagði þau elska lagið sem væri skemmtistaðavænt og svalt. hallfridur@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×