Handbolti

Óskar Bjarni: Það eru forréttindi að starfa með landsliðinu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Samstarf Óskars Bjarna og Guðmundar var mjög farsælt.
Samstarf Óskars Bjarna og Guðmundar var mjög farsælt. Mynd/Vilhelm
Óskar Bjarni Óskarsson hefur verið aðstoðarlandsliðsþjálfari Guðmundar Guðmundssonar síðustu fjögur ár. Hann ákvað að láta af því starfi eftir Ólympíuleikana. Fannst það góður tímapunktur þar sem hann var þess utan að taka að sér spennandi þjálfarastarf í Danmörku.

Óskari Bjarna hefur nú snúist hugur og flest bendir til þess að hann verði aðstoðarlandsliðsþjálfari Arons Kristjánssonar. Þegar er búið að ganga frá því að Gunnar Magnússon verði áfram í þjálfarateyminu en HSÍ vill halda bæði Gunnari og Óskari Bjarna enda hafi þeir staðið sig vel og eru í metum hjá leikmönnum liðsins.

„Ólympíuleikarnir áttu að vera endapunktur. Ég verð samt að viðurkenna að mig langar til þess að vera í kringum þetta. Mig langar að vera með Aroni og strákunum og reyna að púsla þessu öllu saman hjá mér," sagði Óskar Bjarni en hann hefur virkilega notið þess að vinna með landsliðinu.

„Það eru forréttindi að starfa með landsliðinu og því erfitt að hætta. Þetta er það skemmtilegt og gefandi."

Knútur Hauksson, formaður HSÍ, sagði á blaðamannafundi í gær að reynt hefði verið að ganga frá málunum í gær en það hefði ekki gengið upp alveg strax.

„Það eru talsverðar líkur á því að þetta gangi upp. Það eru allir að vinna í því að láta málið ganga upp. Ég er bjartsýnn á að það gangi eftir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×