Michael J. Fox ætlar að snúa aftur í sjónvarpið í nýjum sjónvarpsþáttum sem verða lauslega byggðir á ævi hans. 22 þættir verða framleiddir fyrir sjónvarpsstöðina NBC.
Fox leikur þriggja barna föður sem býr í New York-borg og þarf að sinna fjölskyldunni, vinnunni og takast á við heilsuvandamál sín. Persóna hans verður með Parkinson-sjúkdóminn, rétt eins og Fox sjálfur. Hann sló fyrst í gegn í þáttunum Family Ties á níunda áratugnum en hefur lítið leikið undanfarinn áratug. Þó hefur hann leikið gestahlutverk í Curb Your Enthusiasm og The Good Wife við góðar undirtektir.
