Menning

Skopmyndateiknari skrifar Skaupið

Halldór Baldursson skopmyndateiknari er einn af handritshöfundum Áramótaskaupsins í ár. Hann hlakkar til að prófa að vinna í hópi.
Halldór Baldursson skopmyndateiknari er einn af handritshöfundum Áramótaskaupsins í ár. Hann hlakkar til að prófa að vinna í hópi. fréttablaðið/gva
Halldór Baldursson, skopteiknari Fréttablaðsins, er einn af sex handritshöfundum Áramótaskaupsins í ár.

Hann segist hlakka til þess að fá loks tækifæri til að vinna með öðrum í hópi í stað þess að sitja einn að vinnu sinni.

Halldór semur handritið ásamt Sævari Sigurgeirssyni, Önnu Svövu Knútsdóttur, Hjálmari Hjálmarssyni, Gunnari Helgasyni og Gunnari Birni Guðmundssyni leikstjóra Skaupsins.

„Það verður spennandi að fá að vinna með svona skapandi og skemmtilegu fólki, að sjá hvort ég finni nýja hlið á minni kímni og hvort hópvinnan kveiki í fleirum þarna inni. Svo er þetta líka mikill heiður," segir Halldór.

Hann segir Gunnar Björn hafa borið hugmyndina undir sig fyrir nokkrum vikum og hefur hópurinn þegar hist einu sinni. Aðspurður segist hann viss um að vinna hans sem skopteiknari muni nýtast við handritaskrifin.

„Pólitískt spé er allsráðandi á báðum vettvöngum. Það kemur líka fyrir að brandararnir mínir ganga ekki upp sem teikningar og þá get ég kannski notað þá í Skaupið," segir Halldór en þverneitar að eiga brandara á lager. „Ég er algjörlega hugmyndasnauður og eins og undin tuska dag hvern.

Það kemur þó alltaf eitthvað þegar maður sest niður og fer að skapa og búa til, en það er ekki þannig að ég haldi áfram og safni í lager. Ég er bara feginn að vera búinn."

Þegar hann er að lokum spurður hvort hann muni ekki sitja límdur við sjónvarpsskjáinn á gamlárskvöld segir hann: „Ég missi aldrei af Skaupinu og það ætti enginn að missa af því, þetta er skylduáhorf."

- sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.