Menning

Íslenskar bækur björguðu löngum lestarferðum

Kynningarferðir Kristofs á skáldsögunni Það var ekki ég nýttust til að þýða íslenskar bækur yfir á þýsku.
Kynningarferðir Kristofs á skáldsögunni Það var ekki ég nýttust til að þýða íslenskar bækur yfir á þýsku.
Íslenskar bækur voru sem kunnugt er í brennidepli á bókamessunni í Frankfurt í fyrra. Kristof Magnusson er meðal þeirra þýðenda sem kallaðir voru til til að þýða bækur og listi íslenskra bóka sem kom út í þýðingu hans á síðasta ári er ansi flottur.

Grettis saga, Íslenskur aðall eftir Þórberg Þórðarson, Tíu ráð eftir Hallgrím Helgason, Ofsi eftir Einar Kárason, Konur eftir Steinar Braga, Vetrarsól eftir Auði Jónsdóttur, Blysfarir eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur auk ljóða eftir Hannes Sigfússon.

Kristof segir hógvær að útgáfan hafi verið skipulögð með svo löngum fyrirvara að nægur tími hafi gefist til þýðinganna. „Ég var svo mikið í lestum árið 2010 þegarÞað var ekki ég kom út í Þýskalandi, og nýtti tímann vel. Útgáfunni fylgdu upplestrar um land allt og langar lestarsetur.

Mér þykir mjög gott að þýða í lestum, það er ekkert Internet sem truflar og auðvelt að sökkva sér í verkið. Ef ég hefði ekki haft allar þessar góðu bækur hefði ég líklega orðið alveg hundleiður á þessum ferðalögum,“ segir Kristof og útskýrir að upplestrar séu ein aðaltekjulind þýskra höfunda sem séu því meira en til í að fara landshorna á milli til að kynna verk sín.

„Það er mikil hefð fyrir þeim, sérstaklega í smærri bæjum er bóksalinn miðpunktur menningarlífsins og vel mætt á upplestra.“

Kristof fylgdi „sínum“ höfundum á upplestra í tengslum við bókamessuna sem hann segir hafa hitt algjörlega í mark í Þýskalandi. „Það eru engar ýkjur að hún tókst afar vel og íslenskar bækur vöktu mikla athygli.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×