Tónlist

Best of 2012 haldið í Höllinni

Moses Hightower spilar í fyrsta sinn í Laugardalshöll í desember.
Moses Hightower spilar í fyrsta sinn í Laugardalshöll í desember. fréttablaðið/anton
"Moses hefur ekki spilað þar áður. Þetta verður örugglega mikið stuð," segir Steingrímur Karl Teague úr hljómsveitinni Moses Hightower.

Mörg af stærstu nöfnum ársins í tónlistinni koma saman í Laugardalshöll miðvikudaginn 19. desember þegar blásið verður til tónlistarveislunnar Best of 2012. Fram koma Ásgeir Trausti, sem hefur slegið í gegn með sinni fyrstu plötu Dýrð í dauðaþögn, Hjálmar, sem hafa ekki spilað hér á landi í nokkurn tíma, hljómsveitin Valdimar sem sendir frá sér nýtt efni á næstunni, Moses Hightower sem nýlega gaf út sína aðra plötu, og Kiriyama Family sem sló í gegn með laginu Weekends í sumar og nú síðast laginu Heal.

Þetta verða aðrir tónleikarnir á skömmum tíma sem Moses Hightower og Ásgeir Trausti spila á því fimm dögum áður verða þeir í Háskólabíói. "Ég held að hvort tveggja verði bara rosalega gaman," segir Steingrímur Karl en Ásgeir hitaði einmitt upp fyrir Moses á útgáfutónleikum þeirra.

Aðspurður segist hann mjög ánægður með viðtökurnar við nýjustu plötu Moses, Önnur Mósebók. Hún kom einnig út á vínyl og var því fagnað með óvæntum tónleikum í Lucky Records við Hverfisgötu á mánudag. "Lucky Records er vagga vínylsins og þetta var mjög gaman."

Forsala aðgöngumiða á Best of 2012 fer fram á Midi.is og hefst hún á hádegi 1. nóvember. -fb










Fleiri fréttir

Sjá meira


×