Handbolti

Tveir sannfærandi sigrar eru frábær byrjun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson
Guðjón Valur Sigurðsson Mynd/AFP
Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, er markahæsti leikmaðurinn í undankeppni EM eftir tvo ellefu marka leiki. Hann var sáttur með sigurinn þegar Fréttablaðið heyrði í honum í gær.

„Ég held að við getum verið sáttir með þessa byrjun í riðlinum. Það var kannski óöryggi í byrjun í báðum leikjunum en tveir sannfærandi sigrar eru frábær byrjun," sagði Guðjón Valur Sigurðsson.

„Við höfum oft þurft tíma til að koma okkur í gang. Strákarnir í liðinu eiga hrós skilið fyrir hvernig við kláruðum þetta því þetta voru ekki auðveldar aðstæður," sagði Guðjón Valur.

„Við vorum að spila við lið sem við þekkjum mjög lítið. Það var lítið til af efni um þá og í rauninni bara einn leikur því þeir eru með nýtt lið. Þeir eru mjög stórir, sterkir og þungir og það er því frábært að hafa klárað þetta," sagði Guðjón Valur sem hafði ekki áhyggjur eftir erfiða byrjun.

„Ég var nokkuð viss um að við kæmumst í gírinn. Þetta var aldrei mikil hætta og þeir voru bara yfir í byrjun leiks og því engin ástæða til að hafa áhyggjur," sagði Guðjón sem hrósaði nokkrum mönnum.

„Kári kom flottur inn og Geiri var alveg frábær í fyrri hálfleik. Mér fannst strákarnir í vörninni standa sig mjög vel og þá sérstaklega ef við tökum seinni hálfleikinn," sagði Guðjón Valur. Hann var ekki eins sáttur við rúmenska sambandið.

„Eins og ég sagði við strákana fyrir leik þá eru engar afsakanir þegar menn eru komnir í treyjuna, hvort sem það eru dómarar, ferðalög eða eitthvað. Það var reynt að gera þetta eins erfitt fyrir okkur og hægt var. Við erum að ferðast fáránlega lengi og það er með ólíkindum að það sé leyfilegt að spila leik svona langt frá alþjóðaflugvelli. Við ákváðum bara að taka þessu sem ögrun," sagði Guðjón Valur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×