Skjólið á Höfðatorgi Ólafur Þ. Stephensen skrifar 6. nóvember 2012 06:00 Hluti af arfleifð góðærisins í aldarbyrjun er gler- og stálturnar hingað og þangað um höfuðborgina. Þetta eru misljót minnismerki um tímann þegar öll umsvif fóru út úr eðlilegum skala, hvort sem það voru heimsveldisbyggingar í viðskiptum, stíflu- eða húsbyggingar. Ekkert af þessum húsum er í góðri sátt við umhverfi sitt nema helzt turninn við Smáratorg, sem kallast skemmtilega á við bílastæðaflæmin í kring og hálfbyggða turninn hinum megin við götuna, sem enginn veit hvað á að gera við. Höfðatorgsturninn er ein skelfingin; byggður í útjaðri smágerðs íbúðahverfis, þar sem íbúarnir börðust hetjulegri baráttu gegn óskapnaðinum og bentu meðal annars á hvað byggingin væri í gargandi ósamræmi við umhverfið, skuggavarp og fleira. Eitt af því sem nágrannarnir höfðu á móti turninum á sínum tíma var að hann væri líklegur til að taka á sig mikinn vind og valda sviptivindum og vindhviðum í nágrenninu. Þetta var stutt rökum um að kubbslaga byggingar eins og Höfðatorgsturninn er tækju á sig vind í mikilli hæð, sem væri enn sterkari en vindurinn niðri við jörð, og beindu honum niður á göturnar í kring. Undir þetta tóku fræðimenn sem vissu sitthvað um veður og vinda. Meðal annars var bent á að kubbsformið væri einmitt það óheppilegasta og í útlöndum væri farið að hanna háhýsi sem klyfu vind mun betur en Höfðatorgs-dómínókubburinn. Þessar áhyggjur voru afgreiddar sem hvert annað píp. Aðalhönnuður byggingarinnar greindi frá því að við hönnunina hefði „sérstaklega verið gætt að því að mynda skjól á torginu og m.a. farið með líkan af hverfinu í vindgöng í þeim tilgangi að sjá hvað þyrfti að gera til að koma í veg fyrir að vindhviður kæmust inn á torgið“. Þessi viðleitni virðist hafa klúðrazt lítillega. Að minnsta kosti geta vegfarendur sem tókust á loft og fuku fyrir hornið á skýjakljúfnum í Túnahverfinu síðastliðinn föstudag varla tekið undir að sérstaklega hafi verið girt fyrir vindhviður. Magnús Jónsson, fyrrverandi veðurstofustjóri, sagði í Fréttablaðinu á laugardag að bygging turnsins hefði alla tíð verið glapræði. „Þetta er gott dæmi um hvernig á ekki að standa að verki,“ sagði Magnús. „Háhýsi á þessum stað, svo stutt frá sjó, er veðurfræðilegt skaðræði. Það er eins og menn hafi ekkert hugsað um veður þegar ákveðið var að byggja þetta hús.“ Sú ágæta ábending hefur komið fram eftir að fjölmiðlar birtu myndir af fjúkandi vegfarendum við Höfðatorg að við búum á Íslandi og þar er oft hvasst. Sömuleiðis hefur verið bent á að til þess að brjóta vind í þéttbýli sé ráð að planta trjám og byggja fremur lágt, ekki mikið meira en sex hæðir. Svona í ljósi þess að brezka sérfræðistofnunin með vindgöngin klikkaði svona herfilega á að meta Höfðatorgsturnana væri kannski ráð að skipulagsyfirvöld í Reykjavík endurmætu hvaða kröfur á að gera til háhýsa með tilliti til veðurfars, áður en verktakar fá nýtt mikilmennskubrjálæði. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Halldór 28.12.2024 Jón Ísak Ragnarsson Halldór Veðurstofa Sjálfstæðisflokksins frestar fundi Daníel Hjörvar Guðmundsson Skoðun Ísland er ekki stjórntækt með verðtryggingu? Örn Karlsson Skoðun VII. Aðförin að Ólafi Jóhannessyni Hafþór S. Ciesielski Skoðun Er sjávarútvegur einkamál kvótakónga? Finnbjörn A. Hermannsson Skoðun Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Að þora að stíga skref Magnús Þór Jónsson Skoðun Ó Palestína Arnar Eggert Thoroddsen Skoðun „Þetta er algerlega galið“ Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Er þetta alvöru? Bjarni Karlsson Skoðun
Hluti af arfleifð góðærisins í aldarbyrjun er gler- og stálturnar hingað og þangað um höfuðborgina. Þetta eru misljót minnismerki um tímann þegar öll umsvif fóru út úr eðlilegum skala, hvort sem það voru heimsveldisbyggingar í viðskiptum, stíflu- eða húsbyggingar. Ekkert af þessum húsum er í góðri sátt við umhverfi sitt nema helzt turninn við Smáratorg, sem kallast skemmtilega á við bílastæðaflæmin í kring og hálfbyggða turninn hinum megin við götuna, sem enginn veit hvað á að gera við. Höfðatorgsturninn er ein skelfingin; byggður í útjaðri smágerðs íbúðahverfis, þar sem íbúarnir börðust hetjulegri baráttu gegn óskapnaðinum og bentu meðal annars á hvað byggingin væri í gargandi ósamræmi við umhverfið, skuggavarp og fleira. Eitt af því sem nágrannarnir höfðu á móti turninum á sínum tíma var að hann væri líklegur til að taka á sig mikinn vind og valda sviptivindum og vindhviðum í nágrenninu. Þetta var stutt rökum um að kubbslaga byggingar eins og Höfðatorgsturninn er tækju á sig vind í mikilli hæð, sem væri enn sterkari en vindurinn niðri við jörð, og beindu honum niður á göturnar í kring. Undir þetta tóku fræðimenn sem vissu sitthvað um veður og vinda. Meðal annars var bent á að kubbsformið væri einmitt það óheppilegasta og í útlöndum væri farið að hanna háhýsi sem klyfu vind mun betur en Höfðatorgs-dómínókubburinn. Þessar áhyggjur voru afgreiddar sem hvert annað píp. Aðalhönnuður byggingarinnar greindi frá því að við hönnunina hefði „sérstaklega verið gætt að því að mynda skjól á torginu og m.a. farið með líkan af hverfinu í vindgöng í þeim tilgangi að sjá hvað þyrfti að gera til að koma í veg fyrir að vindhviður kæmust inn á torgið“. Þessi viðleitni virðist hafa klúðrazt lítillega. Að minnsta kosti geta vegfarendur sem tókust á loft og fuku fyrir hornið á skýjakljúfnum í Túnahverfinu síðastliðinn föstudag varla tekið undir að sérstaklega hafi verið girt fyrir vindhviður. Magnús Jónsson, fyrrverandi veðurstofustjóri, sagði í Fréttablaðinu á laugardag að bygging turnsins hefði alla tíð verið glapræði. „Þetta er gott dæmi um hvernig á ekki að standa að verki,“ sagði Magnús. „Háhýsi á þessum stað, svo stutt frá sjó, er veðurfræðilegt skaðræði. Það er eins og menn hafi ekkert hugsað um veður þegar ákveðið var að byggja þetta hús.“ Sú ágæta ábending hefur komið fram eftir að fjölmiðlar birtu myndir af fjúkandi vegfarendum við Höfðatorg að við búum á Íslandi og þar er oft hvasst. Sömuleiðis hefur verið bent á að til þess að brjóta vind í þéttbýli sé ráð að planta trjám og byggja fremur lágt, ekki mikið meira en sex hæðir. Svona í ljósi þess að brezka sérfræðistofnunin með vindgöngin klikkaði svona herfilega á að meta Höfðatorgsturnana væri kannski ráð að skipulagsyfirvöld í Reykjavík endurmætu hvaða kröfur á að gera til háhýsa með tilliti til veðurfars, áður en verktakar fá nýtt mikilmennskubrjálæði.
Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun
Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun