Að grípa gæsina Þorsteinn Pálsson skrifar 22. desember 2012 06:00 Jón Bjarnason hefur myndað meirihluta í utanríkisnefnd Alþingis með leiðtogum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins um að hætta aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Það merkilega við þá tillögu er að hún segir meiri sögu um innanlandspólitíkina en utanríkisstefnuna. Hún varpar ljósi á ríkisstjórn sem hefur ekki vald á þeim hlutum sem hún vélar um. Margar sams konar tillögur hafa verið fluttar á kjörtímabilinu án þess að koma til atkvæða, utan ein sem var felld. Verkurinn er sá að VG er með aðildarumsókn en á móti aðild. Besta leiðin til að lifa með þeirri pólitísku tvöfeldni er að víkja sér hjá því að greiða atkvæði. Stjórnarmeirihluti á hverjum tíma getur svæft mál. VG hefur nýtt sér þá aðstöðu vel. Þegar dregur að kosningum þurfa samstarfsflokkar í ríkisstjórn iðulega að draga fram sérstöðu sína. Það gefur stjórnarandstöðu tækifæri til að reka fleyg í samstarfið. Í þessum tilgangi grípa menn oft gæsina þegar hún gefst, hvert sem málefnið er. Eftir því sem kosningar hafa nálgast hefur VG gengið lengra í báðar áttir í Evrópumálunum. Forystumenn þeirra hafa notað stærri orð um andstöðu sína við aðild. Á sama tíma hafa þeir teygt sig lengra en vænta mátti með efnislegum skuldbindingum varðandi samningsafstöðuna. Í því sambandi má nefna að Ísland hefur þegar lýst því án fyrirvara að stefnan sé að taka upp evru. Samkomulagslyklinum breytt Samkomulag stjórnarflokkanna um aðildarumsóknina fólst í því að endanlegur samningur yrði borinn undir leiðbeinandi þjóðaratkvæði áður en þingmenn þyrftu að taka afstöðu til hans. Þessi aðferð var lykillinn að því að VG gæti haft tvöfalda afstöðu í málinu. Hún átti að gera flokknum kleift að vera á móti í þjóðaratkvæði án þess að það hefði áhrif á stjórnarsamstarfið. VG kaus að loka augunum fyrir því að í samningum sem þessum er efnisleg afstaða tekin smám saman allan samningstímann. Enga athygli hefur hins vegar vakið að stjórnarflokkarnir kollvörpuðu á dögunum þessu lykilatriði í samkomulaginu um meðferð aðildarumsóknarinnar. Það gerðist þegar þingmenn þeirra urðu sammála um frumvarp að nýrri stjórnarskrá sem þeir flytja. Þar eru tekin af öll tvímæli um að aðildarsamning á að leggja fyrst fyrir Alþingi. Verði aðildarsamningur samþykktur sem lög fær þjóðin eftir það raunverulegt úrslitavald um hvort þau taka gildi. Þetta þýðir að þingmenn VG geta ekki snúist gegn samningi ef þeir verða áfram í ríkisstjórn með Samfylkingunni nema með því að rjúfa samstarfið fyrst. Ætli þeir að vera á móti á næsta kjörtímabili verða þeir að eiga samstarf við aðra flokka en Samfylkinguna nema hún sé tilbúin til að fórna málinu. Þetta er mikil breyting. Forystumenn stjórnarflokkanna hafa lýst vilja til áframhaldandi samstarfs eftir kosningar. Nýtt samkomulag þeirra um lokameðferð hugsanlegs aðildarsamnings er til bóta en kallar á skýringar af beggja hálfu. Kjósendur eiga rétt á að vita hvernig þeir ætla að halda á þessu stóra máli á næsta kjörtímabili í ljósi þeirra breytinga á málsmeðferð sem þeir áforma að stjórnarskrárbinda fyrir þinglok. Ekki rétti tíminn til að taka ákvörðun Í þessu ljósi er skiljanlegt að stjórnarandstaðan noti það tækifæri sem Jón Bjarnason hefur boðið upp á til að valda óróa í stjórnarliðinu. En í því eru þó líka fólgnar málefnalegar hættur, sérstaklega fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Framsóknarflokkurinn ætlar fyrst og fremst að höfða til óánægðra kjósenda VG. Samstarf við VG eftir kosningar er því rökréttur kostur. Sjálfstæðisflokkurinn þarf á hinn bóginn að höfða til miklu breiðari hóps. Hættan við meirihlutamyndun nú með Jóni Bjarnasyni er sú að kjósendur fái á tilfinninguna að leiðtogar hans sjái helst möguleika á ríkisstjórn með VG. Þeir tveir flokkar geta bara náð saman um andstöðu við Evrópusambandið. Samstarf þeirra myndi því þýða fjögurra ára frestun á viðreisn landsins. Þetta yrði vatn á myllu Bjartrar framtíðar sem þá gæti höfðað til óánægjufylgis jafnt frá Sjálfstæðisflokki sem Samfylkingu eins og gerðist í borginni. Vinni frambjóðandi frjálslyndari arms Samfylkingarinnar formannsslaginn gæti þetta jafnvel hjálpað honum að minnka yfirvofandi atkvæðaflótta til Sjálfstæðisflokksins. Málefnalega er svo ljóst að vegna ástandsins á fjármálamörkuðum heimsins er jafn ótímabært núna að segja nei og já. Hyggilegast er að haga viðræðunum þannig að þjóðin geti tekið ákvörðun eftir mitt næsta kjörtímabil um endanlegan samning. Þá eru allir kostir opnir þegar ætla má að við vitum sjálf hvað við getum og viljum í peningamálum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Skoðanir Þorsteinn Pálsson Mest lesið Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson Skoðun Þegar Samtök verslunar og þjónustu vita betur Erna Bjarnadóttir Skoðun Forréttindablinda strákanna í Viðskiptaráði Sonja Ýr Þorbergsdóttir Skoðun Dæmalaus málflutningur Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Þegar Trölli stal atkvæðum Eyjólfur Ingvi Bjarnason Skoðun Þorpið Alina Vilhjálmsdóttir Skoðun Svar við hótunum Eflingar Sigurður G. Guðjónsson Skoðun
Jón Bjarnason hefur myndað meirihluta í utanríkisnefnd Alþingis með leiðtogum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins um að hætta aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Það merkilega við þá tillögu er að hún segir meiri sögu um innanlandspólitíkina en utanríkisstefnuna. Hún varpar ljósi á ríkisstjórn sem hefur ekki vald á þeim hlutum sem hún vélar um. Margar sams konar tillögur hafa verið fluttar á kjörtímabilinu án þess að koma til atkvæða, utan ein sem var felld. Verkurinn er sá að VG er með aðildarumsókn en á móti aðild. Besta leiðin til að lifa með þeirri pólitísku tvöfeldni er að víkja sér hjá því að greiða atkvæði. Stjórnarmeirihluti á hverjum tíma getur svæft mál. VG hefur nýtt sér þá aðstöðu vel. Þegar dregur að kosningum þurfa samstarfsflokkar í ríkisstjórn iðulega að draga fram sérstöðu sína. Það gefur stjórnarandstöðu tækifæri til að reka fleyg í samstarfið. Í þessum tilgangi grípa menn oft gæsina þegar hún gefst, hvert sem málefnið er. Eftir því sem kosningar hafa nálgast hefur VG gengið lengra í báðar áttir í Evrópumálunum. Forystumenn þeirra hafa notað stærri orð um andstöðu sína við aðild. Á sama tíma hafa þeir teygt sig lengra en vænta mátti með efnislegum skuldbindingum varðandi samningsafstöðuna. Í því sambandi má nefna að Ísland hefur þegar lýst því án fyrirvara að stefnan sé að taka upp evru. Samkomulagslyklinum breytt Samkomulag stjórnarflokkanna um aðildarumsóknina fólst í því að endanlegur samningur yrði borinn undir leiðbeinandi þjóðaratkvæði áður en þingmenn þyrftu að taka afstöðu til hans. Þessi aðferð var lykillinn að því að VG gæti haft tvöfalda afstöðu í málinu. Hún átti að gera flokknum kleift að vera á móti í þjóðaratkvæði án þess að það hefði áhrif á stjórnarsamstarfið. VG kaus að loka augunum fyrir því að í samningum sem þessum er efnisleg afstaða tekin smám saman allan samningstímann. Enga athygli hefur hins vegar vakið að stjórnarflokkarnir kollvörpuðu á dögunum þessu lykilatriði í samkomulaginu um meðferð aðildarumsóknarinnar. Það gerðist þegar þingmenn þeirra urðu sammála um frumvarp að nýrri stjórnarskrá sem þeir flytja. Þar eru tekin af öll tvímæli um að aðildarsamning á að leggja fyrst fyrir Alþingi. Verði aðildarsamningur samþykktur sem lög fær þjóðin eftir það raunverulegt úrslitavald um hvort þau taka gildi. Þetta þýðir að þingmenn VG geta ekki snúist gegn samningi ef þeir verða áfram í ríkisstjórn með Samfylkingunni nema með því að rjúfa samstarfið fyrst. Ætli þeir að vera á móti á næsta kjörtímabili verða þeir að eiga samstarf við aðra flokka en Samfylkinguna nema hún sé tilbúin til að fórna málinu. Þetta er mikil breyting. Forystumenn stjórnarflokkanna hafa lýst vilja til áframhaldandi samstarfs eftir kosningar. Nýtt samkomulag þeirra um lokameðferð hugsanlegs aðildarsamnings er til bóta en kallar á skýringar af beggja hálfu. Kjósendur eiga rétt á að vita hvernig þeir ætla að halda á þessu stóra máli á næsta kjörtímabili í ljósi þeirra breytinga á málsmeðferð sem þeir áforma að stjórnarskrárbinda fyrir þinglok. Ekki rétti tíminn til að taka ákvörðun Í þessu ljósi er skiljanlegt að stjórnarandstaðan noti það tækifæri sem Jón Bjarnason hefur boðið upp á til að valda óróa í stjórnarliðinu. En í því eru þó líka fólgnar málefnalegar hættur, sérstaklega fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Framsóknarflokkurinn ætlar fyrst og fremst að höfða til óánægðra kjósenda VG. Samstarf við VG eftir kosningar er því rökréttur kostur. Sjálfstæðisflokkurinn þarf á hinn bóginn að höfða til miklu breiðari hóps. Hættan við meirihlutamyndun nú með Jóni Bjarnasyni er sú að kjósendur fái á tilfinninguna að leiðtogar hans sjái helst möguleika á ríkisstjórn með VG. Þeir tveir flokkar geta bara náð saman um andstöðu við Evrópusambandið. Samstarf þeirra myndi því þýða fjögurra ára frestun á viðreisn landsins. Þetta yrði vatn á myllu Bjartrar framtíðar sem þá gæti höfðað til óánægjufylgis jafnt frá Sjálfstæðisflokki sem Samfylkingu eins og gerðist í borginni. Vinni frambjóðandi frjálslyndari arms Samfylkingarinnar formannsslaginn gæti þetta jafnvel hjálpað honum að minnka yfirvofandi atkvæðaflótta til Sjálfstæðisflokksins. Málefnalega er svo ljóst að vegna ástandsins á fjármálamörkuðum heimsins er jafn ótímabært núna að segja nei og já. Hyggilegast er að haga viðræðunum þannig að þjóðin geti tekið ákvörðun eftir mitt næsta kjörtímabil um endanlegan samning. Þá eru allir kostir opnir þegar ætla má að við vitum sjálf hvað við getum og viljum í peningamálum.
Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson Skoðun
Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson Skoðun