Veiði

Stórlaxahelgi í Blöndu

Þessi stórlax fær sumardvöl í Laxasetrinu á Blöndusósi.
Þessi stórlax fær sumardvöl í Laxasetrinu á Blöndusósi. Lax-á
Veiði var áfram með miklum ágætum um helgina í Blöndu, á laugardaginn komu reyndar bara tveir laxar á land en þeir voru fallegir; 10 og 11 pund. Á sunnudaginn komu vanir menn til veiða og komu þá upp 7 laxar og var meðalvigtin með afbrigðum góð. Sá minnsti var 9 pund en þeir stærstu voru 18 og 19 pund – restin var á bilinu 11 og 13 pund.

Þeir sem luku svo veiðum í morgun voru einnig með sjö laxa – þar á meðal tvo í kringum 15 pundin. Það er óhætt að segja að það sé líf í tuskunum fyrir norðan, eins og kemur fram á heimasíðu Lax-ár.



Annar þessara stóru frá því á sunnudag hefur nú fengið aðsetur á hinu nýstofnaða Laxasetri á Blönduósi og mun þar fá undir sig sérhannað búr í sumar.

Laxinn er nú í geymslukari í Laxasetrinu á meðan lokahönd er lögð á sérhannaða laxabúrið.

Veiðivísir hefur fyrr fjallað um Laxasetrið á Blönduósi sjá hér.

Lax-á á einhverjar stangir lausar á næstu dögum í Blöndu, en þeim fækkar hratt.

svavar@frettabladid.is






×