Veiði

Fullyrðingar Landsvirkjunar um Stóru-Laxá gagnrýndar

Laxveiðimenn vita að náttúrufegurðin í Stóru-Laxá er hrikaleg.
Laxveiðimenn vita að náttúrufegurðin í Stóru-Laxá er hrikaleg. Mynd: Björgólfur Hávarðsson.
Sérfræðingur Veiðimálastofnunar gagnrýnir fullyrðingar Landsvirkjunar um áhrif hugsanlegrar virkjunar í Stóru-Laxá á laxastofna. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Frétt Fréttablaðsins:

"Veiðimálastofnun gerir athugasemdir við fullyrðingar Landsvirkjunar um aðstæður í Stóru-Laxá og segir þær ekki styðjast við rök.

Landsvirkjun hefur sótt um rannsóknarleyfi í Stóru-Laxá með 25 til 30 megavatta virkjun í huga. Í svari fyrirspurnar Fréttablaðsins, sem birt var í blaðinu á miðvikudag, segir að yrði af virkjun mundi rennsli árinnar jafnast og skilyrði fyrir laxfiska batna verulega, en miklar rennslissveiflur hafi mjög neikvæð áhrif á seiðabúskap. Þá segir fyrirtækið áhrifin geta orðið svipuð og í Blöndu.

Veiðimálastofnun sendi Fréttablaðinu athugasemd vegna þessara fullyrðinga og segir fullyrðingar um batnandi skilyrði vafasamar og rennslisbreytingar af manna völdum hafi nær undantekningarlaust neikvæð áhrif á lífríki, en stofnunin hefur fylgst með veiði í Stóru-Laxá um áratuga skeið og seiðaframleiðslu frá 1985.

"Flóð er hluti af náttúrunni líka og svo er það nú oftar en ekki að þegar mannlegi þátturinn kemur inn og menn fara að miðla, þá fer það eftir þörfum rafmagnsframleiðslunnar, en ekki því að menn séu að herma eftir náttúrunni,“ segir Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri hjá Veiðimálastofnun, í samtali við Fréttablaðið.

Veiðimálastofnun segir óljóst við hvaða rannsóknir Landsvirkjun styðjist í ályktunum sínum. "Það að fullyrða að aðstæður í Stóru-Laxá og Blöndu séu sambærilegar á ekki á neinn hátt við rök að styðjast.“

Guðni segir aðstæður í ánum gjörólíkar. Blanda sé jökul­á og megnið af grófari jökulleirnum setjist nú í lóninu og áin sé mun tærari en áður. Laxinn gangi því mun fyrr upp ána en fyrir virkjun. Það hafi hins vegar ekkert með aðstæður í Stóru-Laxá að gera, enda sé hún ekki jökulá, og því séu ályktanir Landsvirkjunar sérkennilegar.

"Það sem stuðaði mig var það að þeir voru farnir að draga ályktanir um hver áhrifin yrðu á fiskstofn og lífríki í Stóru-Laxá, án þess að hafa neinar forsendur til þess,“ segir Guðni.

"Almennt er það þannig að virkjanir hafa neikvæð áhrif, þó svo að það sé hægt að finna dæmi eins og í Blöndu – og sennilega Þjórsá líka – þar sem karakter árinnar breyttist og jökuláhrifin minnkuðu.“

kolbeinn@frettabladid.is"






×