Lífið

Glænýtt og sjóðandi heitt sýnishorn úr Svartur á leik

Vísir frumsýnir hér nýtt sýnishorn úr glæpatryllinum Svartur á leik. Myndin verður frumsýnd á Íslandi í næstu viku, föstudaginn 2. mars.

Svartur á leik hefur þegar verið sýnd á kvikmyndahátíðunum í Rotterdam og Berlín þar sem henni var vægast sagt vel tekið. Hollywood Reporter sagði hana eina af heitustu myndunum á kvikmyndahátíðinni í Berlín og beindi einnig kastljósi sínu að Óskari Þór Axelssyni leikstjóra. Aðrir gagnrýnendur hrósuðu leikurunum í hástert, sögðu myndina frábæra skemmtun og að glæpaheimurinn sem dreginn sé upp í henni sannfærandi og jafn hrottalegan og finna má í öðrum ríkjum.

Svartur á leik er byggð á samnefndri metsölubók eftir Stefán Mána. Sagan gerist í lok síðustu aldar og segir af Stebba Psycho sem óvænt flækist inn í innstu myrkur undirheima Reykjavíkur. Þorvaldur Davíð Kristjánsson leikur Stebba en aðrir aðalleikarar eru Jóhannes Haukur Jóhannesson, Damon Younger, Egill Einarsson, Vignir Rafn Valþórsson og María Birta Bjarnadóttir.

Myndin er framleidd af Zik Zak kvikmyndum, Filmus og danska kvikmyndaleikstjóranum Nicholas Vinding Refn.

Hægt er að horfa á sýnishornið hér fyrir ofan eða á sjónvarpssíðu Vísis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.