Handbolti

Aron: Erum ekki með neitt yfirburðalið

Landsliðsþjálfarinn mun stýra Haukaliðinu í vetur en síðan segja skilið við félagið. Í bili að minnsta kosti. Lærisveinum Arons er spáð yfirburðasigri í N1-deildinni í vetur.

Liðið hefur styrkt sig mikið í sumar og meðal annars fengið Sigurberg Sveinsson en hann hefur reyndar verið frá vegna meiðsla.

"Ég tel að við séum með sterkt lið en við erum samt ekki með neitt yfirburðalið. Okkur var spáð 4.-5. sæti í fyrra en stóðum uppi sem deildarmeistarar og tökum þrjá titla af fjórum. Við lékum yfir væntingum," sagði Aron á kynningarfundi N1-deildanna í dag.

"Það hafa orðið breytingar á liðinu. Menn farnir og aðrir komnir. Sigurbergur átti virkilega að styrkja liðið en hann er meiddur og óljóst hvenær hann verður klár í slaginn.

"Þegar hann er kominn á fullt þá erum við með sterkt lið. Fram að því erum við með þéttan hóp en alls ekkert yfirburðalið. Við stefnum samt á að verða Íslandsmeistarar. Það þarf samt mikið til að ná þeim árangri og allt að ganga upp.

"Deildin verður jöfn og mörg lið að berjast um sæti í úrslitakeppninni."

Aron segist hafa spáð sínu liði efsta sætinu, hann setti FH í annað sætið og ÍR í það þriðja.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×