Saga stangveiða: Niðursuða James Ritchie á Hvítárlaxi Svavar Hávarðsson skrifar 29. september 2012 13:00 Veitt á Ferjukotseyrum, gengt Hvítárvöllum. Gamla Hvítárbrúin sést hér í fjarska. Mynd/Trausti Það er mikið rætt um netaveiði á laxi þessa dagana og hvernig hún hefur áhrif á stangveiði á þeim svæðum þar sem hún er stunduð. Við sem veiðum á stöng gagnrýnum, mörg hver, þessar veiðar hart enda eru þær á skjön við hagsmuni okkar. Við á Veiðivísi höfum fjallað nokkuð um þetta álitaefni, en í þessari grein langar undirrituðum að víkja aðeins að atvinnusögunni sem tengist veiði á laxi í net. Við förum upp í Borgarfjörð og kynnumst því hvernig laxinn var nýttur á tímabili til niðursuðu. Tenging greinarinnar við sögu stangveiða er kannski svolítið loðin, en ég læt hana samt vaða.1858 Sumarið 1858 kom til Íslands skoskur maður að nafni James Ritchie. Fátt er að finna um þennan Skota í íslenskum heimildum annað en að hann var eigandi niðursuðuverksmiðju í Peterhead á Skotlandi og að hann settist að í Borgarnesi með það að markmiði að sjóða niður íslenskan lax. Í Borgarnesi byggði hann lítið verksmiðjuhús og um sumarið 1858 náði hann að hefja takmarkaða framleiðslu sem frekar væri rétt að kalla tilraunastarfssemi. Þegar hann kynntist staðháttum í Borgarfirði lærði hann að staðsetning fyrirtækisins var óheppileg þar sem laxveiðin var aðallega ofar í héraðinu á Hvítárvöllum hjá Andrési Vigfússyni Fjeldsted sem þar bjó. Ritchie kom sér í samband við Andrés bónda, og þeir urðu ásáttir um að sonur hans, sem einnig hét Andrés og stundaði laxveiðarnar fyrir föður sinn, tæki að sér flytja lax til verksmiðjunnar í Borgarnesi. Ritchie borgaði ágætlega fyrir; tíu skildinga fyrir pund af laxi, slægðum og hauslausum.[1] Í ferðum sínum í Borgarnes þetta fyrsta sumar vingaðist Andrés við hinn skoska athafnamann. Þeir unnu náið saman og á þeim tíma fékk Andrés áhuga á niðursuðuiðnaði. Um haustið hélt hann utan með Ritchie og vann m.a. við skipasmíðar um veturinn. Vorið eftir urðu þeir samferða upp til Íslands og tóku upp þráðinn að nýju við að sjóða niður lax. Ritchie hafði ákveðið haustið áður að flytja niðursuðuna nær hinum gjöfulu hyljum Hvítár og strax við komuna til Íslands var ráðist í að reisa myndarlegt verksmiðjuhús úr timbri við ármót Grímsár og Hvítár skammt innan við Hvítárvelli. Andrés og Ritchie unnu svo hlið við hlið við niðursuðuna um sumarið, en fóru utan að nýju um haustið og vann Andrés í niðursuðuverksmiðju Skotans um veturinn. Þannig gekk það í þrjú ár, að Andrés var heima á sumrin og stundaði niðursuðu á laxi með Ritchie, en dvaldist með honum í Skotlandi á veturna. Þessum ferðum hans lauk svo þegar faðir hans lést og hann tók við skyldum hans. Andrés mun hafa verið góður búmaður og óhræddur við framkvæmdir og nýjungar. Ekki átti það síst við um laxveiði.[2] Má telja öruggt að samband hans við Ritchie hafi haldist þar sem hann rak niðursuðuverksmiðjuna áfram í túnfætinum hjá Andrési. Engar heimildir eru þó fyrir því að Andrés hafi starfað við niðursuðuna eftir að hann tók við búi á Hvítárvöllum.18000 pund Ritchie starfrækti niðursuðuverksmiðju sína til ársins 1876 og flestöll árin var starfsemin blómleg. Ritchie keypti og sauð niður mestallan lax sem veiddur var í Borgarfirði en víkkaði einnig út starfsemina á sama tíma. Hann byggði upp niðursuðuhús á Akranesi og sauð þar niður bolfisk, aðallega ýsu.[3] Þessi starfsemi hans virðist af samtímaheimildum hafa verið umfangsmeiri en laxaniðursuðan. Í lítilli grein í Þjóðólfi árið 1863 segir að laxakaupmaðurinn Ritchie "…hafi nú flutt út með sér 9000 pund af niðursoðnum laxi og 18000 pund af niðursoðinni ýsu."[4] Ritchie hafði þann háttinn á sem fyrr, að koma að vori og fara að hausti með afurðir sínar. Til þessa notaði hann að líkindum eigin seglskútu og flutti hann með sér "…marga Englendinga…", auk þess sem hann réð til sín nokkra Íslendinga á hverju vori.[5] Hann flutti einnig með sér lítinn gufubát sem hann notaði til flutninga um Borgarfjörðinn og á Akranesi.1876 Árið 1876 fluttust til landsins tveir Englendingar sem settust að í Ferjukoti við Hvítá. Þeir voru hingað komnir til að kaupa lax sem þeir lögðu á ís og sendu ferskan til Englands. Þeir borguðu betra verð fyrir laxinn óverkaðan en Ritchie taldi sér mögulegt fyrir verkaðan fisk og varð hann því að leggja verksmiðjuna niður. Í kjölfarið hvarf hann af landi brott með öll sín tæki og tól og átti ekki afturkvæmt hingað. Þess má geta að Sigurður Fjeldsted, sonur Andrésar, hélt við hefð áa sinna með veiðum og vinnslu á Hvítárlaxi. Hann seldi saltaðan og reyktan lax til Evrópu en erfiðleikar ráku hann til að leita nýrra leiða. Sigurður segir svo frá í grein sem hann skrifaði um laxveiðar í Borgarfirði: "Á þeim árum sendu Ameríkumenn svo mikið af söltuðum laxi á Evrópumarkaðinn, að hann var yfirfullur, fékkst því ekki nema lágt verið fyrir hann. Reykti laxinn náði heldur ekki verði, hann linaðist upp á svo langri ferð og tapaði útliti. Seldist hann því ekki nema fyrir lágt verð. Þá komst ég í samband við enskt firma í London. Seldi það soðinn, súrsaðan lax í eikarkútum (Pickled Salmon). Fékk ég nákvæmar leiðbeiningar um alla meðferð laxins, byggði skúr með stóru eldstæði og notaði stóran eirpott, er lék á rambalda, svo að sveifla mátti pottinum af eldstæðinu og á, þótt fullur væri. Eigi mátti sjóða laxinn nema í eirpotti. Er laxinn var soðinn, var hann færður upp á rimlaborð og látinn kólna. Þegar hann var fullkaldur, var honum raðað vandlega ofan í kútana, er tóku 20 pund. Að því búnu var botninn sleginn í og fyllt með ediki. Var það sérstök tegund af ediki, er til þess var notuð. Allmikið var soðið niður um sumarið 1906 og sent til London, en því miður misheppnaðist tilraun þessi. Mikið af laxinum var komið í graut, er til London kom, en það, sem óskemmt komst seldist vel."[6] Mikið tap varð af þessum tilburðum Sigurðar til að vinna og selja niðurlagðan lax. Hann hætti þessari vinnslu þess vegna og gerði ekki frekari tilraunir til niðurlagningar á laxi. Á því leikur enginn vafi að niðursuða Ritchie var brautryðjandastarf í lagmetisiðnaði hérlendis og tilraunir Sigurðar tengjast þeim beint og óbeint. Erfiðara er að sjá hvort athafnamenn hérlendis hafi veitt starfsemi hans athygli með það í huga að hefja svipaðan rekstur annars staðar á landinu. Hitt er vitað að fyrsta íslenska fyrirtækið í niðursuðuiðnaði var stofnað norður á Siglufirði aðeins tveimur árum eftir að Ritchie hvarf af landi brott. Það var Snorri Pálsson, verslunarstjóri Gránufélagsins, og Einar bóndi Guðmundsson á Hraunum sem stóðu að þessu fyrirtæki, og má fullyrða að athafnamaður eins og Snorri Pálsson hafi vitað af nýrri iðngrein og útflutningi henni tengdri sem hafði verið starfrækt í 18 ár. Þannig er líklegt að Ritchie hafi haft töluverð áhrif á íslenska iðnsögu og starf hans því merkilegt í heildarsamhengi atvinnusögu þjóðarinnar. svavar@frettabladid.is[1] Sigurður Fjeldsted, "Laxveiði." Héraðssaga Borgarfjarðar II (Reykjavík, 1938), bls. 245-246.[2] Sigurður Fjeldsted, "Laxveiði." Héraðssaga Borgarfjarðar II (Reykjavík, 1938), bls. 245-246.[3] Högni Torfason, Saga lagmetisiðnaðarins (Reykjavík, 1988), bls. 12.[4]Þjóðólfur 19. október 1863.[5] Högni Torfason, Saga lagmetisiðnaðarins (Reykjavík, 1988), bls. 12.[6] Sigurður Fjeldsted, "Laxveiði." Héraðssaga Borgarfjarðar II (Reykjavík, 1938), bls. Stangveiði Mest lesið 22 útskrifaðir úr námi í veiðileiðsögn Veiði Sumarið gert upp í Víðidalsá Veiði Haustfagnaður SVFR haldinn 19. október Veiði Mikil fjöldi erlendra gæsaveiðimanna Veiði Norðurá að gefa fleiri tveggja ára laxa Veiði 206 laxar á svæðum SVFR í Soginu Veiði 176 laxa holl í Haffjarðará Veiði Fyrstu laxarnir á land úr Mýrarkvísl Veiði 94 sm hængur úr Laxá í Kjós Veiði Sportveiðiblaðið er komið út Veiði
Það er mikið rætt um netaveiði á laxi þessa dagana og hvernig hún hefur áhrif á stangveiði á þeim svæðum þar sem hún er stunduð. Við sem veiðum á stöng gagnrýnum, mörg hver, þessar veiðar hart enda eru þær á skjön við hagsmuni okkar. Við á Veiðivísi höfum fjallað nokkuð um þetta álitaefni, en í þessari grein langar undirrituðum að víkja aðeins að atvinnusögunni sem tengist veiði á laxi í net. Við förum upp í Borgarfjörð og kynnumst því hvernig laxinn var nýttur á tímabili til niðursuðu. Tenging greinarinnar við sögu stangveiða er kannski svolítið loðin, en ég læt hana samt vaða.1858 Sumarið 1858 kom til Íslands skoskur maður að nafni James Ritchie. Fátt er að finna um þennan Skota í íslenskum heimildum annað en að hann var eigandi niðursuðuverksmiðju í Peterhead á Skotlandi og að hann settist að í Borgarnesi með það að markmiði að sjóða niður íslenskan lax. Í Borgarnesi byggði hann lítið verksmiðjuhús og um sumarið 1858 náði hann að hefja takmarkaða framleiðslu sem frekar væri rétt að kalla tilraunastarfssemi. Þegar hann kynntist staðháttum í Borgarfirði lærði hann að staðsetning fyrirtækisins var óheppileg þar sem laxveiðin var aðallega ofar í héraðinu á Hvítárvöllum hjá Andrési Vigfússyni Fjeldsted sem þar bjó. Ritchie kom sér í samband við Andrés bónda, og þeir urðu ásáttir um að sonur hans, sem einnig hét Andrés og stundaði laxveiðarnar fyrir föður sinn, tæki að sér flytja lax til verksmiðjunnar í Borgarnesi. Ritchie borgaði ágætlega fyrir; tíu skildinga fyrir pund af laxi, slægðum og hauslausum.[1] Í ferðum sínum í Borgarnes þetta fyrsta sumar vingaðist Andrés við hinn skoska athafnamann. Þeir unnu náið saman og á þeim tíma fékk Andrés áhuga á niðursuðuiðnaði. Um haustið hélt hann utan með Ritchie og vann m.a. við skipasmíðar um veturinn. Vorið eftir urðu þeir samferða upp til Íslands og tóku upp þráðinn að nýju við að sjóða niður lax. Ritchie hafði ákveðið haustið áður að flytja niðursuðuna nær hinum gjöfulu hyljum Hvítár og strax við komuna til Íslands var ráðist í að reisa myndarlegt verksmiðjuhús úr timbri við ármót Grímsár og Hvítár skammt innan við Hvítárvelli. Andrés og Ritchie unnu svo hlið við hlið við niðursuðuna um sumarið, en fóru utan að nýju um haustið og vann Andrés í niðursuðuverksmiðju Skotans um veturinn. Þannig gekk það í þrjú ár, að Andrés var heima á sumrin og stundaði niðursuðu á laxi með Ritchie, en dvaldist með honum í Skotlandi á veturna. Þessum ferðum hans lauk svo þegar faðir hans lést og hann tók við skyldum hans. Andrés mun hafa verið góður búmaður og óhræddur við framkvæmdir og nýjungar. Ekki átti það síst við um laxveiði.[2] Má telja öruggt að samband hans við Ritchie hafi haldist þar sem hann rak niðursuðuverksmiðjuna áfram í túnfætinum hjá Andrési. Engar heimildir eru þó fyrir því að Andrés hafi starfað við niðursuðuna eftir að hann tók við búi á Hvítárvöllum.18000 pund Ritchie starfrækti niðursuðuverksmiðju sína til ársins 1876 og flestöll árin var starfsemin blómleg. Ritchie keypti og sauð niður mestallan lax sem veiddur var í Borgarfirði en víkkaði einnig út starfsemina á sama tíma. Hann byggði upp niðursuðuhús á Akranesi og sauð þar niður bolfisk, aðallega ýsu.[3] Þessi starfsemi hans virðist af samtímaheimildum hafa verið umfangsmeiri en laxaniðursuðan. Í lítilli grein í Þjóðólfi árið 1863 segir að laxakaupmaðurinn Ritchie "…hafi nú flutt út með sér 9000 pund af niðursoðnum laxi og 18000 pund af niðursoðinni ýsu."[4] Ritchie hafði þann háttinn á sem fyrr, að koma að vori og fara að hausti með afurðir sínar. Til þessa notaði hann að líkindum eigin seglskútu og flutti hann með sér "…marga Englendinga…", auk þess sem hann réð til sín nokkra Íslendinga á hverju vori.[5] Hann flutti einnig með sér lítinn gufubát sem hann notaði til flutninga um Borgarfjörðinn og á Akranesi.1876 Árið 1876 fluttust til landsins tveir Englendingar sem settust að í Ferjukoti við Hvítá. Þeir voru hingað komnir til að kaupa lax sem þeir lögðu á ís og sendu ferskan til Englands. Þeir borguðu betra verð fyrir laxinn óverkaðan en Ritchie taldi sér mögulegt fyrir verkaðan fisk og varð hann því að leggja verksmiðjuna niður. Í kjölfarið hvarf hann af landi brott með öll sín tæki og tól og átti ekki afturkvæmt hingað. Þess má geta að Sigurður Fjeldsted, sonur Andrésar, hélt við hefð áa sinna með veiðum og vinnslu á Hvítárlaxi. Hann seldi saltaðan og reyktan lax til Evrópu en erfiðleikar ráku hann til að leita nýrra leiða. Sigurður segir svo frá í grein sem hann skrifaði um laxveiðar í Borgarfirði: "Á þeim árum sendu Ameríkumenn svo mikið af söltuðum laxi á Evrópumarkaðinn, að hann var yfirfullur, fékkst því ekki nema lágt verið fyrir hann. Reykti laxinn náði heldur ekki verði, hann linaðist upp á svo langri ferð og tapaði útliti. Seldist hann því ekki nema fyrir lágt verð. Þá komst ég í samband við enskt firma í London. Seldi það soðinn, súrsaðan lax í eikarkútum (Pickled Salmon). Fékk ég nákvæmar leiðbeiningar um alla meðferð laxins, byggði skúr með stóru eldstæði og notaði stóran eirpott, er lék á rambalda, svo að sveifla mátti pottinum af eldstæðinu og á, þótt fullur væri. Eigi mátti sjóða laxinn nema í eirpotti. Er laxinn var soðinn, var hann færður upp á rimlaborð og látinn kólna. Þegar hann var fullkaldur, var honum raðað vandlega ofan í kútana, er tóku 20 pund. Að því búnu var botninn sleginn í og fyllt með ediki. Var það sérstök tegund af ediki, er til þess var notuð. Allmikið var soðið niður um sumarið 1906 og sent til London, en því miður misheppnaðist tilraun þessi. Mikið af laxinum var komið í graut, er til London kom, en það, sem óskemmt komst seldist vel."[6] Mikið tap varð af þessum tilburðum Sigurðar til að vinna og selja niðurlagðan lax. Hann hætti þessari vinnslu þess vegna og gerði ekki frekari tilraunir til niðurlagningar á laxi. Á því leikur enginn vafi að niðursuða Ritchie var brautryðjandastarf í lagmetisiðnaði hérlendis og tilraunir Sigurðar tengjast þeim beint og óbeint. Erfiðara er að sjá hvort athafnamenn hérlendis hafi veitt starfsemi hans athygli með það í huga að hefja svipaðan rekstur annars staðar á landinu. Hitt er vitað að fyrsta íslenska fyrirtækið í niðursuðuiðnaði var stofnað norður á Siglufirði aðeins tveimur árum eftir að Ritchie hvarf af landi brott. Það var Snorri Pálsson, verslunarstjóri Gránufélagsins, og Einar bóndi Guðmundsson á Hraunum sem stóðu að þessu fyrirtæki, og má fullyrða að athafnamaður eins og Snorri Pálsson hafi vitað af nýrri iðngrein og útflutningi henni tengdri sem hafði verið starfrækt í 18 ár. Þannig er líklegt að Ritchie hafi haft töluverð áhrif á íslenska iðnsögu og starf hans því merkilegt í heildarsamhengi atvinnusögu þjóðarinnar. svavar@frettabladid.is[1] Sigurður Fjeldsted, "Laxveiði." Héraðssaga Borgarfjarðar II (Reykjavík, 1938), bls. 245-246.[2] Sigurður Fjeldsted, "Laxveiði." Héraðssaga Borgarfjarðar II (Reykjavík, 1938), bls. 245-246.[3] Högni Torfason, Saga lagmetisiðnaðarins (Reykjavík, 1988), bls. 12.[4]Þjóðólfur 19. október 1863.[5] Högni Torfason, Saga lagmetisiðnaðarins (Reykjavík, 1988), bls. 12.[6] Sigurður Fjeldsted, "Laxveiði." Héraðssaga Borgarfjarðar II (Reykjavík, 1938), bls.
Stangveiði Mest lesið 22 útskrifaðir úr námi í veiðileiðsögn Veiði Sumarið gert upp í Víðidalsá Veiði Haustfagnaður SVFR haldinn 19. október Veiði Mikil fjöldi erlendra gæsaveiðimanna Veiði Norðurá að gefa fleiri tveggja ára laxa Veiði 206 laxar á svæðum SVFR í Soginu Veiði 176 laxa holl í Haffjarðará Veiði Fyrstu laxarnir á land úr Mýrarkvísl Veiði 94 sm hængur úr Laxá í Kjós Veiði Sportveiðiblaðið er komið út Veiði