Skilnaður fremur en girðingar Ólafur Þ. Stephensen skrifar 23. október 2012 06:00 Ráðgjafahópur atvinnuvega- og fjármálaráðherra skilaði í síðustu viku tillögum um heildarumgjörð um fjármálastöðugleika á Íslandi. Þeirra á meðal eru margar tillögur um hvernig takmarka megi eða koma í veg fyrir áhættusækni í endurreistu bankakerfi, til þess auðvitað að mistökin sem leiddu til hrunsins fyrir fjórum árum endurtaki sig ekki. Á meðal þessara tillagna er að „unnt verði að aðgreina mikilvægustu rekstrarþætti, svo sem fjárfestingar- og viðskiptabankastarfsemi, við skilameðferð, og athugað verði gaumgæfilega hvort krefjast skuli lagalegs aðskilnaðar tiltekinna sérlega áhættusamra starfsþátta frá þeim rekstri bankanna sem tekur við innlánum ef þeir starfsþættir eru verulegur hluti af rekstri banka". Hér er ekki tekið djúpt í árinni og virðist fylgt þeirri línu, sem hefur verið lögð bæði í Bandaríkjunum og á vettvangi Evrópusambandsins, að „girða af" rekstur fjárfestingarbankastarfsemi innan sömu bankasamstæðu fremur en að aðskilja með öllu rekstur fjárfestingarbanka og viðskiptabanka. Rökin fyrir aðskilnaði eru þó frekar augljós. Áhættusækni er nánast byggð inn í viðskiptalíkan fjárfestingarbanka, sem þjónusta stærstu fyrirtækin á markaðnum og fagfjárfesta og ástunda verðbréfamiðlun. Íhaldssemi og varkárni er fremur ríkjandi við rekstur viðskiptabanka, sem taka við innlánum almennings og fyrirtækja og veita útlán gegn veðum. Í leiðara viðskiptablaðsins Financial Times í síðustu viku voru hálfvolgar tillögur nefndar á vegum brezkra stjórnvalda um „girðingar" innan fjármálafyrirtækja gagnrýndar. „Menning áhættusækni gengur þvert gegn íhaldssömum gildum sem eiga að ráða í viðskiptabankastarfsemi," skrifaði blaðið. „Í einu og sama fyrirtækinu er líklegt að fyrrnefnda menningin seytli í gegnum hvaða girðingu sem verður reist og verði þeirri síðarnefndu yfirsterkari." Þetta er kjarni þessa máls. Ef viðskiptabönkum er leyft að stunda fjárfestingarbankastarfsemi er líklegt að gróðavonin, sem er meiri í fjárfestingarbönkum, leiði til þess að menn taki of mikla áhættu. Við höfum séð einu sinni til hvers það getur leitt og þurfum ekki að læra þá lexíu aftur. Í tilviki íslenzku bankanna getur staðan orðið sú að þegar ekki er lengur hægt að hagnast á endurmati á eignasöfnum, freistist menn til að vilja efla fjárfestingarbankastarfsemi til að bæta arðsemina, fremur en til dæmis að skera niður rekstrarkostnað sem alþjóðlegur samanburður sýnir þó að ekki er vanþörf á. Það er stundum notað sem rök gegn aðskilnaði viðskipta- og fjárfestingarbanka á Íslandi að síðarnefnda starfsemin sé hverfandi nú um stundir. Það eru einmitt rök fyrir því að stíga þetta skref sem fyrst, áður en hún verður svo ríkur hluti af rekstri bankanna að sömu flækjurnar við aðskilnað og nú þvælast fyrir stjórnvöldum bæði í ESB og Bandaríkjunum verða óleysanlegar. Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, sagði í fréttum RÚV á sunnudaginn að ólíkt öðrum þjóðum gætu Íslendingar nú „skilið á milli þessarar starfsemi með mjög afgerandi hætti án þess að það bitni á starfsemi viðskiptabankanna svo neinu nemi". Það er rétt hjá honum og rétt að gera meira í málinu en að „athuga það gaumgæfilega". Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Nei, við skulum ekki kaupa handa þeim fleiri vopn Haraldur Ólafsson Skoðun Tímaskekkjan skólaíþróttir Davíð Már Sigurðsson Skoðun Sólarhringur til stefnu Flosi Eiríksson Skoðun Ég kýs mælskan og mannlegan leiðtoga sem rektor Engilbert Sigurðsson Skoðun Er þetta satt eða heyrði ég þetta bara nógu oft? Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir Skoðun VR á krossgötum - félagsmenn verða að hafna sundrungu Harpa Sævarsdóttir Skoðun Bakpokinn sem þyngist þegar á brattann sækir Gunnar Úlfarsson Skoðun Kominn tími til að þingmenn axli ábyrgð Björn Ólafsson Skoðun Vanfjármögnun Háskóla Íslands verður að breyta Magnús Karl Magnússon Skoðun Þúsund hjúkrunarrými óskast strax í gær Aríel Pétursson Skoðun
Ráðgjafahópur atvinnuvega- og fjármálaráðherra skilaði í síðustu viku tillögum um heildarumgjörð um fjármálastöðugleika á Íslandi. Þeirra á meðal eru margar tillögur um hvernig takmarka megi eða koma í veg fyrir áhættusækni í endurreistu bankakerfi, til þess auðvitað að mistökin sem leiddu til hrunsins fyrir fjórum árum endurtaki sig ekki. Á meðal þessara tillagna er að „unnt verði að aðgreina mikilvægustu rekstrarþætti, svo sem fjárfestingar- og viðskiptabankastarfsemi, við skilameðferð, og athugað verði gaumgæfilega hvort krefjast skuli lagalegs aðskilnaðar tiltekinna sérlega áhættusamra starfsþátta frá þeim rekstri bankanna sem tekur við innlánum ef þeir starfsþættir eru verulegur hluti af rekstri banka". Hér er ekki tekið djúpt í árinni og virðist fylgt þeirri línu, sem hefur verið lögð bæði í Bandaríkjunum og á vettvangi Evrópusambandsins, að „girða af" rekstur fjárfestingarbankastarfsemi innan sömu bankasamstæðu fremur en að aðskilja með öllu rekstur fjárfestingarbanka og viðskiptabanka. Rökin fyrir aðskilnaði eru þó frekar augljós. Áhættusækni er nánast byggð inn í viðskiptalíkan fjárfestingarbanka, sem þjónusta stærstu fyrirtækin á markaðnum og fagfjárfesta og ástunda verðbréfamiðlun. Íhaldssemi og varkárni er fremur ríkjandi við rekstur viðskiptabanka, sem taka við innlánum almennings og fyrirtækja og veita útlán gegn veðum. Í leiðara viðskiptablaðsins Financial Times í síðustu viku voru hálfvolgar tillögur nefndar á vegum brezkra stjórnvalda um „girðingar" innan fjármálafyrirtækja gagnrýndar. „Menning áhættusækni gengur þvert gegn íhaldssömum gildum sem eiga að ráða í viðskiptabankastarfsemi," skrifaði blaðið. „Í einu og sama fyrirtækinu er líklegt að fyrrnefnda menningin seytli í gegnum hvaða girðingu sem verður reist og verði þeirri síðarnefndu yfirsterkari." Þetta er kjarni þessa máls. Ef viðskiptabönkum er leyft að stunda fjárfestingarbankastarfsemi er líklegt að gróðavonin, sem er meiri í fjárfestingarbönkum, leiði til þess að menn taki of mikla áhættu. Við höfum séð einu sinni til hvers það getur leitt og þurfum ekki að læra þá lexíu aftur. Í tilviki íslenzku bankanna getur staðan orðið sú að þegar ekki er lengur hægt að hagnast á endurmati á eignasöfnum, freistist menn til að vilja efla fjárfestingarbankastarfsemi til að bæta arðsemina, fremur en til dæmis að skera niður rekstrarkostnað sem alþjóðlegur samanburður sýnir þó að ekki er vanþörf á. Það er stundum notað sem rök gegn aðskilnaði viðskipta- og fjárfestingarbanka á Íslandi að síðarnefnda starfsemin sé hverfandi nú um stundir. Það eru einmitt rök fyrir því að stíga þetta skref sem fyrst, áður en hún verður svo ríkur hluti af rekstri bankanna að sömu flækjurnar við aðskilnað og nú þvælast fyrir stjórnvöldum bæði í ESB og Bandaríkjunum verða óleysanlegar. Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, sagði í fréttum RÚV á sunnudaginn að ólíkt öðrum þjóðum gætu Íslendingar nú „skilið á milli þessarar starfsemi með mjög afgerandi hætti án þess að það bitni á starfsemi viðskiptabankanna svo neinu nemi". Það er rétt hjá honum og rétt að gera meira í málinu en að „athuga það gaumgæfilega".