Lífið

Fær beiðnir um að gera ljósbláar myndir

Baldvin Z leikstjóri Óróa hefur fengið beiðnir um að gera ljósbláar myndir fyrir samkynhneigða í kjölfarið á sýningu Óróa í Bretlandi og Bandaríkjunum.
Baldvin Z leikstjóri Óróa hefur fengið beiðnir um að gera ljósbláar myndir fyrir samkynhneigða í kjölfarið á sýningu Óróa í Bretlandi og Bandaríkjunum. Fréttablaðið/arnþór
„Það er gaman að myndin sé að falla í kramið hjá samkynhneigðum úti í heimi,“ segir Baldvin Z leikstjóri myndarinnar Óróa sem nýverið kom út á DVD í Bretlandi og Bandaríkjunum.

Unglingamyndin var í öðru sæti á sérstökum vinsældalista breska Amazon yfir myndir sem eiga að höfða til samkynhneigðra í gær. Myndin hefur flakkað upp og niður listann síðustu vikur. Baldvin hefur persónulega fengið að finna fyrir vinsældum myndarinnar hjá þeim hópi.

„Ég hef fengið margar mjög skrýtnar beiðnir frá útlöndum og oftast eru það fyrirspurnir um það hvort ég geti ekki búið til svipaða mynd eins og Óróa nema með ljósbláu ívafi fyrir samkynhneigða,“ segir Baldvin og fullyrðir að hann hafi afþakkað öll slík boð hingað til.

„Mér hefur einnig verið bætt inn í alls konar lokaða hópa fyrir samkynhneigða á Facebook undanfarið, sem er frekar fyndið þar sem ég er núll samkynhneigður og á bæði konu og börn.“

Órói var nýlega sýnd á alþjóðlegri kvikmyndahátíð samkynhneigðra í London og var uppselt á allar sýningarnar, Baldvin telur líklega ástæðu fyrir velgengni myndarinnar vera sú að hún fjalli ekki beint um samkynhneigð. „Órói fjallar meira um tilfinningar og strák sem er að finna sig í lífinu. Myndin fellur einmitt inn í nokkra flokka og ég hef verið að ferðast með hana á unglingahátíðir líka.“ -áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.