Sport

Nýr Íslandsmeistari í fyrsta sinn síðan 1997

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Birkir Gunnarsson úr TFK varð í gær Íslandsmeistari utanhúss í einliðaleik karla í tennis þegar hann lagði Raj Bonifacius úr Víkingi í úrslitaleik. Íris Staub úr TFK sigraði í kvennaflokki en hún lagði Önnu Soffíu Grönholm úr TFK í úrslitum.

Arnar Sigurðsson, sem unnið hafði sigur í einliðaleik karla í fimmtán ár í röð eða frá árinu 1997, var ekki á meðal þátttakenda í ár. Því opnaðist kjörið tækifæri annarra til þess að láta ljós sitt skína og stjarna Birkis skein skærast.

Birkir lagði Raj í tveimur settum 6-2 og 6-2 en hann hafði áður sigrað bróður sinn, Magnús Gunnarsson, í undanúrslitum.

Í kvennaflokki hrósaði Íris Staub sigri 6-0 og 6-3 gegn Önnu Soffíu Grönholm. Þetta er í sjöunda skipti sem Íris vinnur Íslandsmeistaratitilinn í einliðaleik utanhúss en hún vann titilinn fyrst árið 1999.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×