Veiði

Ytri-Rangá: 1.003 laxar á land - frábær veiði í Eystri-Rangá

Svavar Hávarðsson skrifar
Ytri er komin yfir þúsund laxa og þess verður ekki langt að bíða að tölurnar telji 2000+, eins og dagveiðin er núna.
Ytri er komin yfir þúsund laxa og þess verður ekki langt að bíða að tölurnar telji 2000+, eins og dagveiðin er núna. Mynd/Lax-a.is
Ytri Rangá er kominn í þúsund laxa en í gærkvöldi voru komnir nákvæmlega 1.003 laxar á land. Það er mjög góður gangur þessa dagana en veiðin síðustu daga hefur verið á bilinu 60-70 laxar á dag. Með þessu áframhaldi verður Ytri Rangá ekki lengi að smella í annað þúsund en tölurnar eru fljótar að telja í svona veiði, segir á heimasíðu Lax-ár.

Lausar stangir um helgina eru í boði í Ytri og frekari upplýsingar er að finna hér.

Systuráin Eystri-Rangá er líka í góðum málum, sem einnig á við um aðrar ár á Suðurlandi. Heimildarmaður Veiðivísis hafði þetta að segja eftir veiði um helgina. „Smálaxagöngurnar sem beðið hefur verið eftir í Eystri virðast vera að hefjast - 58 laxar á land fyrir hádegi í gær [25. júlí], veiðin vel dreifð yfir öll níu svæðin og nærri allir grálúsugir. Ég var sjálfur í Þverá í Fljótshlíð og smálax virtist vera að ganga þar líka, fengum fimm laxa á einni vakt, og þrír þeirra lúsugir."

Við þetta má bæta lítilli frétt á agn.is þar sem segir: „Það er frábær veiði Þessa dagana í Eystri Rangá, dagleg veiði undanfarna daga hefur verið á bilinu 60-80 laxar. Að Sögn Ólafs Björnssonar yfirleiðsögumanns í Eystri Rangá eru góðar göngur í ánna og veiðin er nokkuð jöfn. Bestu svæðin síðustu daga hafa verið 1-3-4-5-6 og svæði 8."



svavar@frettabladid.is










×