Lífið

Barnalán hjá FM Belfast

„Þetta var ekki beint planið hjá okkur en engu síður skemmtilegt að við skyldum öll fjölga okkur á svipuðum tíma," segir Lóa Hjálmtýsdóttir, söngkona í stuðsveitinni FM Belfast, en hún á von á sínu fyrsta barni ásamt Árna Hlöðverssyni, sem einnig er meðlimur sveitarinnar.

Það er því óhætt að fullyrða að um barnalán í FM Belfast sé að ræða en fyrsta barn Árna Vilhjálmssonar, söngvara sveitarinnar, fæddist fyrir stuttu. Lóa á von á litlum dreng í lok júlí og líður vel á meðgöngunni. „Ég er alltaf að bíða eftir því að fá einhverjar skrýtnar aukaverkanir eins og að borða mold en mér sýnist þetta ætla að verða ósköp venjulegmeðganga."

Fm Belfast ætla að kveðja veturinn með formlegum hætti í kvöld á Nasa en Sumardagurinn fyrsti er á morgun og því frí hjá flestum. Tónleikarnir eru þeirra síðustu á Íslandi í bili ásamt því að sveitin kveður skemmtistaðinn Nasa, sem stefnt er á að loki í byrjun sumars.

„Já, þetta er allt saman mjög dramatískt og það er óneitanlega sorglegt að kveðja Nasa því við höfum átt margar góðar stundir þar. Mér líður eins og Reykjavík sé að missa eina félagsheimilið sitt."

Hægt er að sjá stutta auglýsingu fyrir tónleikana í meðfylgjandi myndbandi.

Í byrjun maí fer FM Belfast til Berlínar þar sem hún kemur fram á stærstu hátíðum Þýskalands, Rock am Ring og Rock im Park. „Þetta verður fjör en við ætlum að reyna að halda þessu eins þægilegu og auðveldu og við getum. Ég vona að ég verði hress og fái ekki skapsveiflur í hitanum í Berlín. Það væri leiðinlegt fyrir strákana," segir Lóa hlæjandi en um leið og heim er komið er sveitin farin í barneignarfrí. „Við verðum vonandi dugleg að eyða tíma í stúdíóinu og snúum fersk aftur að því liðnu." -áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.