Lífið

Heldur námskeið í Eurovision

Reynir Þór segir mörg góð lög í keppninni í ár en hann telur íslenska lagið þó eiga góðan séns. Hans uppáhaldslög eru frá Svíþjóð, Bretlandi og Serbíu.
Reynir Þór segir mörg góð lög í keppninni í ár en hann telur íslenska lagið þó eiga góðan séns. Hans uppáhaldslög eru frá Svíþjóð, Bretlandi og Serbíu.
„Þetta er bæði hugsað fyrir fólk sem hefur kynnt sér keppnina vel og líka þá sem langar bara að læra aðeins meira,“ segir Reynir Þór Eggertsson, Eurovision-spekúlant, um Eurovision-námskeið sem hann er að fara af stað með hjá Mími símenntun nú síðar í mánuðinum.

Námskeiðið hefst miðvikudaginn 25. apríl og er tvö kvöld. „Á fyrra kvöldinu ætlum við að fara yfir fyrstu 41 ár keppninnar, eða þar til símakerfið var tekið upp árið 1997. Á seinna kvöldinu skoðum við svo keppnirnar frá 1997 til dagsins í dag. Áhrif símakosningar, stækkun til austurs og fleira,“ segir Reynir Þór.

Reynir segir tilgang námskeiðsins vera að fræða fólk um keppnina. „Það tala til dæmis margir um að Austur-Evrópubúar kjósi alltaf hver annan. Á þessum fimmtán keppnum frá því að símakosningin var tekin upp hefur sama land þó aldrei unnið tvisvar og níu lönd hafa sigrað í fyrsta skipti. Á árunum fimmtán þar á undan unnu Írar hins vegar fimm sinnum, Svíar tvisvar og Norðmenn tvisvar,“ segir Reynir Þór. Það er því greinilegt að almenningur í Evrópu er ekki einungis að kjósa nágranna sína.

Þetta er í fyrsta skipti sem námskeiðið er haldið og að sögn Reynis Þórs verður það í tali og tónum. „Ég ætla samt ekki að taka lagið,“ segir hann og hlær. - trs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.