Lífið

Undirbýr sig fyrir Ólympíuleikana

Ásdís Hjálmsdóttir spjótkastari.
Ásdís Hjálmsdóttir spjótkastari. mynd/365 miðlar
Nafn: Ásdís Hjálmsdóttir, spjótkastari.

Aldur: 26 ára

Hjúskaparstaða? Einhleyp

Af hverju byrjaðir þú að stunda spjótkast? Það gerðist nú fyrir algjöra tilviljun en það kom fljótlega í ljós þegar ég byrjaði í frjálsum að kastgreinar voru mín sterkasta hlið. Svo leiddist ég bara smám saman yfir í spjótkastið.

Varstu gagnrýnd fyrir það, þar sem þetta er ekki mjög algengt kvennasport? Kannski ekki beint gagnrýnd en fólk hefur mikið spurt mig af hverju ég hafi valið það og það hefur verið ansi mikið skotið á mig í gegnum tíðina fyrir að vera í kraftaíþrótt og sterklega byggð.

Nú varst þú á meðal 10 afreksmanna sem voru nefndir í valinu á íþróttamanni ársins, árið 2011. Hvernig tilfinning var það? Mér fannst það mjög mikill heiður sem ég er ákaflega þakklát fyrir.

Hvernig lítur venjulegur dagur út í þínu lífi í æfingum, mat og skipulagi? Ég fer alltaf í það að elda mér morgunmat um leið og ég opna augun enda mikil matmanneskja. Þá verður eggjakaka með grænmeti og jafnvel smá kjúklingabitar iðulega fyrir valinu. Um klukkutíma seinna fer ég á æfingu sem tekur yfirleitt svona um tvo til tvo og hálfan tíma og það er mjög misjafnt hvað er gert. Sem spjótkastari þarf ég að lyfta, hlaupa, hoppa, kasta og gera tækniæfingar og yfirleitt er tekin fyrir blanda af tveimur af þessum atriðum á hverri æfingu.

Strax eftir æfinguna fæ ég mér svo prótínhristingum á meðan ég teygi á. Þegar ég er búin að öllu fer ég og fæ mér góða máltíð sem samanstendur af kjöti eða fiski og nógu af grænmeti. Þarna kemur Saffran mjög sterkur inn. Yfirleitt er ég svo að stússast eitthvað seinni partinn eða taka því rólega heima og hvíla mig með góða bók þangað til það kemur að því að fara aftur á æfingu.

Þá fæ ég mér létt snarl, einn til tvo ávexti eða smá hnetur svona klukkutíma áður. Seinni æfingin er svo aðrir tveir tímar og eftir hana fæ ég mér kvöldmat sem aftur samanstendur af kjöti eða fiski og nógu af grænmeti. Kvöldin nýti ég svo með vinum mínum eða fjölskyldu eins og ég mögulega get.

Hvað gerir þú fyrir utan að stunda íþróttina að krafti? Ég var að klára meistaranám í lyfjafræði og er að taka vaktir af og til í Lyfju. En fyrst og fremst er ég að einbeita mér að því að undirbúa mig fyrir Ólympíuleikana í sumar.

Hverjar eru þínar fyrirmyndir? Mínar helstu fyrirmyndir myndi ég segja að séu pabbi minn og Ólafur Stefánsson.

Hvar sérðu þig eftir fimm ár? Eftir fimm ár verð ég á toppnum á ferlinum, að kasta spjóti í toppbaráttunni á stórmótum og njóta þess sem aldrei fyrr.

Lífið á Facebook.

Lífið í Fréttablaðinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.