Þrír starfsmenn endurskoðunarfyrirtækisins KPMG hafa verið færðir til skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara en starfsmenn embættisins komu í höfuðstöðvar KPMG í morgun.
Hald var lagt á gögn er varða fjárfestingafélagið Milestone og tengd félög. Þrátt fyrir boðun í skýrslutöku hefur enginn starfsmanna KPMG verið formlega handtekinn vegna þessa.
Að sögn framkvæmdastjóra KPMG, Sigurðar Jónssonar, hefur rannsókn málsins staðið í nokkurn tíma og fyrirtækið afhent embættinu gögn eftir því sem þurfa þykir til að upplýsa um rannsókn málsins.
Aðspurður segir Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari að málið tengist ekki Vafningsmálinu svokallaða sem þegar er búið að gefa út ákærur í.