Handbolti

Guðjón Valur: Þekki hann betur sem leikmann en þjálfara

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson á æfingu.
Guðjón Valur Sigurðsson á æfingu. Mynd/Valli
Guðjón Valur Sigurðsson tók formlega við fyrirliðabandinu af Ólafi Stefánssyni í gær og mun leið íslenska landsliðið út á völlinn þegar liðið mætir Hvíta-Rússlandi í Laugardalshöllinni í kvöld í fyrsta leik sínum í undankeppni EM 2014.

„Öðrum finnst þetta kannski stærra skref heldur en mér. Ég er búinn að vera afleysingamaður fyrir Óla síðustu ár. Þetta er hlutverk sem ég hef verið í áður og eitthvað sem hvorki breytir mér né hópnum stórkostlega miðað við það sem við erum búnir að ganga í gegnum," segir Guðjón Valur Sigurðsson.

Íslenska liðið fær aðeins tvo daga og þrjár æfingar til þess að undirbúa sig fyrir leikinn sem verður sá fyrsti hjá liðinu undir stjórn Arons Kristjánssonar.

„Þessar undankeppnir hafa verið svona undanfarin ár. Þetta er engin óskastaða en það sitja allir við sama borð. Þeir hafa kannski getað hist aðeins fyrr geri ég ráð fyrir. Við þurfum bara að vera klárir á miðvikudaginn hvort sem við höfum æft mikið eða ekki," segir Guðjón Valur.

Aron mun væntanlega ekki gera miklar breytingar á leik liðsins þegar tíminn er svona naumur.

„Hann er þjálfarinn og má gera það sem hann vill," segir Guðjón Valur og bætir við: „Hann kemur inn með það sem hann ætlast til að við gerum. Hann hefur horft á alla okkar leiki og við getum sagt hvað hefur virkað fyrir okkur. Hann kemur ekki inn og segir að svona sé þetta gert hérna og puntur," segir Guðjón Valur.

„Þetta snýst um samvinnu manna sem við höfum verið með í vörninni síðustu árin. Það hefur skapað þá vörn sem við höfum haft. Það er ekki hægt að breyta öllu en hann er þjálfarinn og getur því breytt því sem hann vill," segir Guðjón Valur en hvernig lýst honum á nýja þjálfarann.

„Ég æft með honum oftar en ég hef haft hann sem þjálfara. Ég þekki hann því betur sem leikmann en þjálfara. Hann er bara búinn að vera með tvær æfingar og við erum að finna gírinn aftur. Það er aðeins rólegra yfir þessu og meira talað en spilað af því að við þurfum að vera með allt á hreinu," segir Guðjón Valur.

„Við vitum hvað hefur virkað fyrir okkur og vitum líka hvar við höfum verið í mestum vandræðum. Þar kemur Aron inn í og segir hvort að hann vilji leysa eitthvað öðruvísi en við höfum gert. Þá er það bara þannig því það er réttur þjálfarans," segir Guðjón Valur.

En hvernig hentar það íslenska liðinu að mæta Hvíta-Rússlandi?

„Það er erfitt að spila við þá að þeirri ástæðu að þeir eru yfirleitt mjög agaðir. Þeir eru ekki að henda boltanum frá sér eftir tíu til fimmtán sekúndur. Þeir bíða lengi eftir að byrja sóknirnar og reyna að hægja á leiknum. Þeir keyra kannski í bakið á okkur og svo reyna þeir að vera lengi í sókn. Við þurfum að setja pressu á þá og reyna að fá þá til að tapa boltanum. Það væri ekki verra að fá alvöru stemmningu á móti þeim. Þetta er agað lið og byggt í kringum frábæran handboltamann. Samt sem áður eru hinir langt í frá að vera eitthvað blindir," segir Guðjón Valur en Barcelona-maðurinn Siarhei Rutenka er aðalmaðurinn í liðinu.

Íslenska liðið þarf að byrja vel í riðlinum en fjögur lið keppa um tvö laus sæti á EM í Danmörku 2014.

„Við vitum hvað er í húfi og við ætlum að tryggja okkur inn á EM og halda Íslandi áfram inn á öllum stórmótum sem spiluð eru. Þá er mikilvægt að byrja vel," sagði Guðjón Valur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×