Lífið

Andrés Andrésson gerir vefsíðu sem geymir minningar fólks

Sara McMahon skrifar
Andrés Andrésson segist hafa orðið gleymnari eftir fæðingu dætra sinna. Með honum á myndinni er Anna Bryndís, dóttir hans.
Andrés Andrésson segist hafa orðið gleymnari eftir fæðingu dætra sinna. Með honum á myndinni er Anna Bryndís, dóttir hans.
„Síðan er prívat og í raun andstæðan við Facebook. Þar skráir þú inn það sem þú vilt muna, hvort sem það eru myndir, setningar, ferðalög eða upplifanir,“ segir Andrés Andrésson, verkfræðingur, um vefsíðuna Pastblaster.com. Síðan er nokkurskonar rafræn dagbók og er henni ætlað að auðvelda einstaklingum að halda utan um minningar sínar.

Andrés segir hugmyndina að Pastblaster hafa orðið til fyrir fjórum árum síðan en upphaflega hugmyndin var að gera listaverk úr minningum. „Eftir að ég eignaðist börn komu upp mörg skemmtileg atvik sem ég vildi muna eftir. Ég skrifaði margt niður en gleymdi svo hvað það var og hvar það var geymt. Hugmyndin þróaðist úr því að vera listaverk í vefsíðu sem ég hef unnið að öll kvöld,“ útskýrir hann.

Síðan fór í loftið fyrir hálfu ári síðan og hafa viðtökurnar verið góðar að sögn Andrésar. „Ég hef nú ekki auglýst þetta mikið en viðtökurnar hafa verið fínar. Þetta hefur verið lengi í vinnslu en er nú komið á það stig að maður vill leyfa öðrum að njóta með sér.“

Aðspurður segist Andrés aldrei hafa haldið dagbækur en viðurkennir að hann sé duglegur að skrifa inn á síðuna. „Ég hef aldrei haldið dagbók, en ég skrifa inn á síðuna kannski fjórum sinnum í mánuði. Ég er núna [á fimmtudag] í hjólaferð um Hvalfjörð og eftir ár mun vefsíðan minna mig á hana,“ segir Andrés. Aðgangur að síðunni er ókeypis og er hún einnig snjallsíma- og spjaldtölvunotendavæn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.