Handbolti

Datt næstum því úr sófanum þegar ég sá Kára spila

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kári Kristján Kristjánsson.
Kári Kristján Kristjánsson. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Wetzlar hefur ákveðið að segja upp samningi sínum við íslenska landsliðslínumanninn Kára Kristjánsson eftir að Kári lék með íslenska landsliðinu í Slóveníu í gær. Félagið vissi ekki betur en að Kári væri í veikindaleyfi heima á Íslandi. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu HSG Wetzlar.

Kári var á sínu síðasta tímabil með HSG Wetzlar en hann er á leiðinni til danska úrvalsdeildarliðsins Bjerringbro-Silkeborg. Samingur Kára og Wetzlar var til 30. júní 2013.

„Ég horfði á leikinn í beinni á netinu og datt næstum því úr sófanum þegar ég sá Kára spila. Við erum agndofa, mjög vonsviknir og virkilega reiðir vegna framkomu hans gagnvart okkar félagi," sagði Björn Seipp, framkvæmdastjóri þýska félagsins.

Kári Kristján gekkst undir aðgerð í febrúar þar sem góðkynja æxli var fjarlægt úr baki hans. Síðan þá hefur hann ekkert spilað með Wetzlar og forráðamenn liðsins bjuggust ekki við að hann myndi fyrst geta spilað aftur í maí.

Kári spilaði stórt hlutverk í sigri Íslands gegn Slóveníu í gær. Hann kom Íslandi yfir, 28-27, í fyrsta skipti í leiknum þegar tvær mínútur voru eftir og gaf svo á Guðjón Val Sigurðsson er hann tryggði Íslandi sigur í lokasókn sinni í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×