Pólitík í Gálgahrauni Ólafur Þ. Stephensen skrifar 22. október 2013 07:00 Hvers konar ríki er það sem handtekur Ómar Ragnarsson? var spurt víða á samfélagsmiðlum í gær, eftir að þessi ástmögur þjóðarinnar var tekinn höndum þar sem hann sat ásamt fleirum í vegi vinnuvéla í Gálgahrauni. Svo fylgdu gjarnan athugasemdir um lögregluríki, offors og yfirgang lögreglunnar og fleira af því tagi. Svarið við spurningunni er samt allt annað. Ríkið sem handtekur Ómar Ragnarsson er ríkið sem fer ekki í manngreinarálit við framkvæmd laganna. Ómar og félagar stöðvuðu löglegar framkvæmdir, sem öll tilskilin leyfi eru fyrir frá til þess bærum yfirvöldum. Lögreglan var að vinna vinnuna sína og ekki verður séð af myndum af atburðunum að hún hafi beitt meira valdi en nauðsynlegt var til að fjarlægja fólkið og leyfa framkvæmdunum að halda áfram. Þótt mótmælin hafi verið friðsamleg var lögreglan í fullum rétti að stöðva þau. Við höfum tiltekið kerfi stofnana og eftirlitsaðila til að meta hvort framkvæmdir eins og við nýja Álftanesveginn standist lög og reglur. Framkvæmdin fór í gegnum skipulagsferli og þrátt fyrir kærur hafa bæði umhverfismat og framkvæmdaleyfi verið úrskurðuð gild. Í því felst það mat viðkomandi stofnana að almannahagsmunir af veginum séu það miklir að þeir réttlæti þau náttúruspjöll sem hann kann að hafa í för með sér. Andstæðingar vegarins vísa til þess að kærumál vegna hans séu fyrir dómi. Vegagerðin bendir hins vegar réttilega á að séu öll tilskilin leyfi fengin, sé meginreglan í íslenzkum rétti sú að málarekstur fresti ekki framkvæmdum. Flestar framkvæmdir eru umdeildar og það er líka rétt hjá Vegagerðinni að lítið væri framkvæmt ef alltaf væri hægt að fresta þeim með kærumálum. Lögreglulögin eru skýr um að fólki ber að fara að fyrirmælum lögreglu. Þá sem ekki gera það má handtaka. Þetta vissu andstæðingar Álftanesvegarins að sjálfsögðu. Þeir beittu þeirri pólitísku baráttuaðferð sem kölluð er borgaraleg óhlýðni og á sér langa hefð, fremur þó í nágrannalöndunum en hér á Íslandi. Í Bretlandi eru mótmæli við vegaframkvæmdum í dreifbýli til dæmis algeng og heldri borgarar standa gjarnan í vegi fyrir jarðýtunum í Barbour-jökkunum sínum og stígvélunum, vitandi vits að þeir verði handteknir. Enda er óhlýðnin fremur pólitísk yfirlýsing en að fólki detti í alvörunni í hug að það geti stöðvað vinnuvélarnar. Á endanum snýst deilan um vegarlagninguna í Gálgahrauni nefnilega um pólitík fremur en lögfræði. Meirihluti bæjarstjórnarinnar í Garðabæ hefur ákveðið að keyra málið áfram, þrátt fyrir mótmælin. Það er pólitísk ákvörðun. Í ljósi þess að lítil þörf virðist vera á nýja veginum miðað við umferð og slysatíðni og umhverfisspjöllin af hans völdum eru veruleg og óafturkræf, kann það að vera misráðin pólitík að bíða ekki niðurstöðu í dómsmálunum sem nú eru rekin. Ef það er svo niðurstaða kjósenda í Garðabæ að bæjarstjórnarmeirihlutinn hafi farið fram með offorsi, henda þeir honum væntanlega út í bæjarstjórnarkosningunum næsta vor. Það væri raunar árangursríkari friðsamleg aðgerð en að reyna að stöðva löglegar framkvæmdir með þaulsetu í hrauninu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun
Hvers konar ríki er það sem handtekur Ómar Ragnarsson? var spurt víða á samfélagsmiðlum í gær, eftir að þessi ástmögur þjóðarinnar var tekinn höndum þar sem hann sat ásamt fleirum í vegi vinnuvéla í Gálgahrauni. Svo fylgdu gjarnan athugasemdir um lögregluríki, offors og yfirgang lögreglunnar og fleira af því tagi. Svarið við spurningunni er samt allt annað. Ríkið sem handtekur Ómar Ragnarsson er ríkið sem fer ekki í manngreinarálit við framkvæmd laganna. Ómar og félagar stöðvuðu löglegar framkvæmdir, sem öll tilskilin leyfi eru fyrir frá til þess bærum yfirvöldum. Lögreglan var að vinna vinnuna sína og ekki verður séð af myndum af atburðunum að hún hafi beitt meira valdi en nauðsynlegt var til að fjarlægja fólkið og leyfa framkvæmdunum að halda áfram. Þótt mótmælin hafi verið friðsamleg var lögreglan í fullum rétti að stöðva þau. Við höfum tiltekið kerfi stofnana og eftirlitsaðila til að meta hvort framkvæmdir eins og við nýja Álftanesveginn standist lög og reglur. Framkvæmdin fór í gegnum skipulagsferli og þrátt fyrir kærur hafa bæði umhverfismat og framkvæmdaleyfi verið úrskurðuð gild. Í því felst það mat viðkomandi stofnana að almannahagsmunir af veginum séu það miklir að þeir réttlæti þau náttúruspjöll sem hann kann að hafa í för með sér. Andstæðingar vegarins vísa til þess að kærumál vegna hans séu fyrir dómi. Vegagerðin bendir hins vegar réttilega á að séu öll tilskilin leyfi fengin, sé meginreglan í íslenzkum rétti sú að málarekstur fresti ekki framkvæmdum. Flestar framkvæmdir eru umdeildar og það er líka rétt hjá Vegagerðinni að lítið væri framkvæmt ef alltaf væri hægt að fresta þeim með kærumálum. Lögreglulögin eru skýr um að fólki ber að fara að fyrirmælum lögreglu. Þá sem ekki gera það má handtaka. Þetta vissu andstæðingar Álftanesvegarins að sjálfsögðu. Þeir beittu þeirri pólitísku baráttuaðferð sem kölluð er borgaraleg óhlýðni og á sér langa hefð, fremur þó í nágrannalöndunum en hér á Íslandi. Í Bretlandi eru mótmæli við vegaframkvæmdum í dreifbýli til dæmis algeng og heldri borgarar standa gjarnan í vegi fyrir jarðýtunum í Barbour-jökkunum sínum og stígvélunum, vitandi vits að þeir verði handteknir. Enda er óhlýðnin fremur pólitísk yfirlýsing en að fólki detti í alvörunni í hug að það geti stöðvað vinnuvélarnar. Á endanum snýst deilan um vegarlagninguna í Gálgahrauni nefnilega um pólitík fremur en lögfræði. Meirihluti bæjarstjórnarinnar í Garðabæ hefur ákveðið að keyra málið áfram, þrátt fyrir mótmælin. Það er pólitísk ákvörðun. Í ljósi þess að lítil þörf virðist vera á nýja veginum miðað við umferð og slysatíðni og umhverfisspjöllin af hans völdum eru veruleg og óafturkræf, kann það að vera misráðin pólitík að bíða ekki niðurstöðu í dómsmálunum sem nú eru rekin. Ef það er svo niðurstaða kjósenda í Garðabæ að bæjarstjórnarmeirihlutinn hafi farið fram með offorsi, henda þeir honum væntanlega út í bæjarstjórnarkosningunum næsta vor. Það væri raunar árangursríkari friðsamleg aðgerð en að reyna að stöðva löglegar framkvæmdir með þaulsetu í hrauninu.