Handbolti

Akureyringar verða áfram í N1 deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Geir Guðmundsson.
Geir Guðmundsson. Mynd/Daníel
Akureyringar tryggðu sér áframhaldandi sæti í N1 deild karla í handbolta með fjögurra marka sigri á Aftureldingu, 29-25, í fallslag í næst síðustu umferð deildarkeppninnar en spilað var í Höllinni á Akureyri í kvöld.

Afturelding var búið að vinna tvo af fimm deildarsigrum sínum í vetur á móti Akureyrarliðinu og Mosfellingar hefðu dregið norðanmenn niður í fallslaginn fyrir alvöru með sigri. Akureyringar stóðust aftur á móti pressuna og sigurinn skilar liðinu fjögurra stiga forskoti á Aftureldingu þegar liðin eiga bara einn leik eftir.

Akureyringar náðu í þrígang tveggja marka forskoti í fyrri hálfleik en Mosfellingar skoruðu þrjú mörk í röð á lokakafla hálfleiksins og komast yfir í 12-13. Heimir Örn Árnason átti hinsvegar lokaorðið í fyrri hálfleiknum og staðan var 13-13 í hálfleik.

Akureyringar tóku frumkvæðið í byrjun seinni hálfleiks og náðu fjögurra marka forskoti um miðjan hálfleikinn, 21-17, en Mosfellingar svöruðu þá með fjórum mörkum í röð og jöfnuðu metin í 21-21.

Akureyringar voru hinsvegar sterkari á lokakaflanum og gerðu nánast út um leikinn með því að skora þrjú mörk í röð og komast yfir í 26-23 þegar sex mínútur voru eftir. Eftir það var sigurinn ekki í hættu.



Akureyri - Afturelding 29-25 (13-13)

Mörk Akrueyrar: Heimir Örn Árnason 11, Geir Guðmundsson 7, Guðmundur Hólmar Helgason 6, Andri Snær Stefánsson 3, Bjarni Fritzson 1, Valþór Guðrúnarson 1.

Mörk Aftureldingar: Hrafn Ingvarsson 7, Birkir Benediktsson 6, Benedikt Reynir Kristinsson 5, Hilmar Stefánsson 3, Þrándur Gíslason 3, Helgi Héðinsson 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×