Viðskipti innlent

Ferðaárið fer af stað með látum - aldrei fleiri ferðamenn í byrjun árs

Ferðamenn í klassísku íslensku veðri.
Ferðamenn í klassísku íslensku veðri.
Aldrei hafa fleiri erlendir ferðamenn sótt landið heim á fyrstu tveimur mánuðum ársins en nú í ár samkvæmt morgunkorni Íslandsbanka.

Það er því óhætt er að segja að árið 2013 hafi farið af stað með miklum látum, en þannig eru brottfarir erlendra ferðamanna komnar upp í 74.000 á fyrstu tveimur mánuðunum samanborið við 54.100 á sama tímabili í fyrra, sem jafngildir fjölgun upp á 36% milli ára.

Frá því að Ferðamálastofa hóf talningar hafa brottfarir erlendra ferðamanna ávallt verið mun fleiri í mars en í febrúar, og er því líklegra en ekki að raunin verði sú í ár, sem gerir mars síðastliðinn að fjölmennasta marsmánuði frá upphafi. Í mars í fyrra fóru 33.600 erlendir ferðamenn frá landinu um Leifsstöð. Telja má líklegt að Ferðamálastofa muni birta í vikunni tölur fyrir marsmánuð um brottfarir gesta frá landinu um Leifsstöð.

Tölur Ferðamálastofu ná einnig til brottfara Íslendinga um Leifsstöð. Á fyrstu tveimur mánuðum ársins hafa aðeins færri Íslendingar haldið erlendis en á sama tímabili í fyrra. Nemur fækkunin á milli ára rúmu 1%.

Áhugavert verður að sjá hvort einhver viðsnúningur verði á þessari þróun á næstu mánuðum, en ef marka má vísitölu Capacent Gallup um fyrirhugaðar utanlandsferðir nú í mars þá hefur fjölgað að nýju í hópi þeirra Íslendinga sem hafa í huga að leggja land undir fót á næstunni.

Verður því fróðlegt að sjá hvernig þróunin hefur verið nú í mars, en í mars í fyrra námu brottfarir Íslendinga um Leifsstöð 26.500.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×