Handbolti

Fimmti bikarslagur Akureyrar og FH á fimm árum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Óskar Andri
Akureyri tekur á móti sjóðheitum FH-ingum í átta liða úrslitum Símabikarsins í Höllinni á Akureyri í kvöld en í boði er sæti í fyrstu undanúrslitunum sem spiluð verða í Laugardalshöllinni.

Leikur Akureyrar og FH hefst klukkan 19.00 í Höllinni á Akureyri í kvöld en á sama tíma mætast ÍR og Haukar í Austurberginu. Leikur Selfoss og ÍBV hefst siðan klukkan 19.30.

Leiðir liða Akureyrar og FH hafa heldur betur legið saman í bikarnum undanfarin ár því þetta er fimmta árið í röð sem þau mætast í bikarkeppninni. FH-ingar hafa haft betur í þremur af þessum fjórum leikjum en allir sigurleikir FH-liðsins hafa komið í sextán liða úrslitum. Akureyri vann hinsvegar undanúrslitaleik liðanna fyrir tveimur árum.

Það er ekki nóg með alla þessa bikarleikir þá hafa þau einnig mæst í úrslitakeppninni undanfarin tvö ár og liðin mættust líka í Flugfélags Íslands bikarnum á dögunum þar sem FH-liðið vann 28-24.

Liðin gerðu 23-23 jafntefli á Akureyri í N1-deildinni fyrr í vetur og Akureyringar unnu síðan 26-23 sigur í Kaplakrika í hinum deildarleiknum. Sá leikur er einmitt síðasti tapleikur FH því FH-ingar hafa unnið alla sjö deildar og bikarleiki sína frá þeim tíma og þar með öll liðin í N1-deildinni nema Akureyri.

Bikarleikir Akureyrar og FH síðustu ár:

16 liða úrslit 2011-2012

Sun. 13.nóv.2011, Kaplakriki

FH - Akureyri 34-21 (16-9)

Undanúrslit 2010-2011

Mán. 14.feb.2011, Höllin Akureyri

Akureyri - FH 23-20 (13-9)

16 liða úrslit 2009-2010

Sun. 15.nóv.2009, Höllin Akureyri

Akureyri - FH 22-23 (10-16)

16 liða úrslit 2008-2009

Sun. 9.nóv.2008, Kaplakriki

FH - Akureyri 37-31 (16-19)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×