Ekkert að fela Ólafur Þ. Stephensen skrifar 21. febrúar 2013 06:00 Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra greindi frá því á Alþingi í fyrradag að starfshópur ynni nú að því að birta fjárhagsupplýsingar ríkisins á netinu. Ætlunin væri að birta upplýsingar um tekjur og gjöld mánaðarlega. Hópurinn ætti enn fremur að gera tillögur um hvernig opna mætti sem mest af gögnum um það hvernig skattfé er varið. Í pólitíkinni er augljóslega einhver hreyfing í þá átt að galopna fyrir aðgang skattgreiðenda að upplýsingum um í hvað peningarnir þeirra eru notaðir. Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti nýlega tillögu sjálfstæðismanna um að gera allar kostnaðargreiðslur borgarinnar almenningi aðgengilegar á netinu. Lögum samkvæmt á almenningur að hafa aðgang að upplýsingum stjórnsýslunnar en þarf að biðja sérstaklega um þær og opinberar stofnanir þurfa þá að leggja í talsverða vinnu til að safna þeim saman. Upplýsingatæknibyltingin hefur gert þetta vinnulag úrelt. Það á að vera auðvelt – og jafnvel vinnusparandi – að birta upplýsingarnar jafnóðum á netinu þannig að ekki þurfi að biðja um þær. Það er þó ekki sama hvernig það er gert. Víða um heim hafa verið opnaðar svokallaðar „gegnsæisgáttir" þar sem opinberar fjárhagsupplýsingar eru birtar. Þar sem bezt hefur tekizt til eru ekki bara birtar hráar upplýsingar, heldur líka samantektir og greiningar og boðið upp á öfluga leitarmöguleika. Þannig getur almenningur leitað í gagnagrunnunum og skoðað til dæmis samninga opinberra aðila um kaup á vörum og þjónustu, hvaða fyrirtæki og ráðgjafar fá greiðslur úr opinberum sjóðum og þar fram eftir götunum. Á góðum vefsíðum af þessu tagi eru líka birt nákvæm yfirlit um útgjöld opinberra stofnana og þau borin saman við samþykktar útgjaldaheimildir í fjárlögum. Þannig getur almenningur fylgzt með því hvort einstakar ríkisstofnanir fara fram úr fjárheimildum – sem gerist ítrekað hér á landi og virðist oft koma jafnvel ráðherrunum sem eiga að bera ábyrgð á þeim gríðarlega á óvart. Í Bandaríkjunum og víðar hefur birting upplýsinga af þessu tagi framkallað fjöldann allan af ábendingum frá almenningi, sem hafa stuðlað að því að uppræta spillingu og spara í opinberum rekstri. Katrín Júlíusdóttir nefndi tvö dæmi um opinberar fjárhagsupplýsingar, sem oft rata í fréttir vegna fyrirspurna frá þingmönnum eða fjölmiðlum; annars vegar hvernig ráðherrar verja „skúffupeningunum", árlegu ráðstöfunarfé sínu, og hins vegar hversu miklir peningar fari til aðkeyptra ráðgjafastarfa fyrir ráðherra. Þarna sagði hún að ekkert væri að fela og almenningur ætti einfaldlega að geta flett þessum upplýsingum upp. Svo er bara að vona að fjárhagsupplýsingakerfi ríkisins, sem hefur kostað skildinginn, sé nógu þróað til að gera þessar góðu hugmyndir að veruleika. Þegar þingmenn og fjölmiðlar spyrja ráðuneytin um tiltekin útgjöld, tekur stundum furðulangan tíma að svara og viðkvæðið er þá gjarnan að það sé svo mikil vinna að ná upplýsingunum út úr kerfinu. Fjármálaráðherrann segir að endamarkmiðið í opnun fjárhagsupplýsinga ríkisins sé að „fara eins langt og við getum". Það er gott markmið. Galopnar upplýsingar um ríkisútgjöldin veita stjórnvöldum og opinberum starfsmönnum hollt aðhald. Í rekstri ríkisins er að sjálfsögðu ekkert að fela. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Þarf ég að flytja úr landi? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir Skoðun Borgið lausnargjaldið Ólafur Hauksson Skoðun Íslenski fasteignamarkaðurinn: spilavíti þar sem húsið vinnur alltaf Ingvar Þóroddsson Skoðun Jólaheimsóknir á aðventunni Guðrún Karls Helgudóttir Skoðun Hvað viltu að bíði þín heima? Þórdís Dröfn Andrésdóttir Skoðun Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Vondar hugmyndir í verðbólgu Hildur Sverrisdóttir Skoðun Krónan eða evran? Kostir og gallar Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Jæja, ræðum þá þetta dásamlega Evrópusamband Haraldur Ólafsson Skoðun Þegar Skagamenn glöddu lítið hjarta María Rut Kristinsdóttir Skoðun
Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra greindi frá því á Alþingi í fyrradag að starfshópur ynni nú að því að birta fjárhagsupplýsingar ríkisins á netinu. Ætlunin væri að birta upplýsingar um tekjur og gjöld mánaðarlega. Hópurinn ætti enn fremur að gera tillögur um hvernig opna mætti sem mest af gögnum um það hvernig skattfé er varið. Í pólitíkinni er augljóslega einhver hreyfing í þá átt að galopna fyrir aðgang skattgreiðenda að upplýsingum um í hvað peningarnir þeirra eru notaðir. Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti nýlega tillögu sjálfstæðismanna um að gera allar kostnaðargreiðslur borgarinnar almenningi aðgengilegar á netinu. Lögum samkvæmt á almenningur að hafa aðgang að upplýsingum stjórnsýslunnar en þarf að biðja sérstaklega um þær og opinberar stofnanir þurfa þá að leggja í talsverða vinnu til að safna þeim saman. Upplýsingatæknibyltingin hefur gert þetta vinnulag úrelt. Það á að vera auðvelt – og jafnvel vinnusparandi – að birta upplýsingarnar jafnóðum á netinu þannig að ekki þurfi að biðja um þær. Það er þó ekki sama hvernig það er gert. Víða um heim hafa verið opnaðar svokallaðar „gegnsæisgáttir" þar sem opinberar fjárhagsupplýsingar eru birtar. Þar sem bezt hefur tekizt til eru ekki bara birtar hráar upplýsingar, heldur líka samantektir og greiningar og boðið upp á öfluga leitarmöguleika. Þannig getur almenningur leitað í gagnagrunnunum og skoðað til dæmis samninga opinberra aðila um kaup á vörum og þjónustu, hvaða fyrirtæki og ráðgjafar fá greiðslur úr opinberum sjóðum og þar fram eftir götunum. Á góðum vefsíðum af þessu tagi eru líka birt nákvæm yfirlit um útgjöld opinberra stofnana og þau borin saman við samþykktar útgjaldaheimildir í fjárlögum. Þannig getur almenningur fylgzt með því hvort einstakar ríkisstofnanir fara fram úr fjárheimildum – sem gerist ítrekað hér á landi og virðist oft koma jafnvel ráðherrunum sem eiga að bera ábyrgð á þeim gríðarlega á óvart. Í Bandaríkjunum og víðar hefur birting upplýsinga af þessu tagi framkallað fjöldann allan af ábendingum frá almenningi, sem hafa stuðlað að því að uppræta spillingu og spara í opinberum rekstri. Katrín Júlíusdóttir nefndi tvö dæmi um opinberar fjárhagsupplýsingar, sem oft rata í fréttir vegna fyrirspurna frá þingmönnum eða fjölmiðlum; annars vegar hvernig ráðherrar verja „skúffupeningunum", árlegu ráðstöfunarfé sínu, og hins vegar hversu miklir peningar fari til aðkeyptra ráðgjafastarfa fyrir ráðherra. Þarna sagði hún að ekkert væri að fela og almenningur ætti einfaldlega að geta flett þessum upplýsingum upp. Svo er bara að vona að fjárhagsupplýsingakerfi ríkisins, sem hefur kostað skildinginn, sé nógu þróað til að gera þessar góðu hugmyndir að veruleika. Þegar þingmenn og fjölmiðlar spyrja ráðuneytin um tiltekin útgjöld, tekur stundum furðulangan tíma að svara og viðkvæðið er þá gjarnan að það sé svo mikil vinna að ná upplýsingunum út úr kerfinu. Fjármálaráðherrann segir að endamarkmiðið í opnun fjárhagsupplýsinga ríkisins sé að „fara eins langt og við getum". Það er gott markmið. Galopnar upplýsingar um ríkisútgjöldin veita stjórnvöldum og opinberum starfsmönnum hollt aðhald. Í rekstri ríkisins er að sjálfsögðu ekkert að fela.