Veiði

Blanda svæði II – tvær ár í einni

Laxi landað við Hólmahorn
Laxi landað við Hólmahorn Mynd/Lax-á
Þeir Þorsteinn Hafþórsson og Stefán Páll Ágústsson birtu fyrir skemmstu veiðistaðalýsingu fyrir svæði 2 í Blöndu og með því voru þeir að svara kalli fjölmargra áhugasamra veiðimanna um miðsvæðin í Blöndu (svæði 2 og 3). Kemur þar margt mjög fróðlegt fram sem rétt er að halda til haga þegar haldið er til veiða í þessari einstöku veiðiperlu.

Áður en lengra er haldið er rétt að minna á bók Gísla Pálssonar um Blöndu og Svartá og þær veiðistaðalýsingar sem bókin hefur að geyma, en veiðistaðalýsing þeirra Þorsteins og Stefáns Páls bætir miklu við þá samantekt. Hún er byggð á reynslu þeirra félaga sem hafa veitt á svæðinu um árabil með góðum árangri.

Að sögn þeirra félaga er svæði 2 í Blöndu um margt einkennilegt veiðisvæði, mikið af laxi getur verið þar að finna. Stórir hlutar svæðisins henta mjög vel til hrygningar og hefur seiðaþéttleiki verið góður þar þegar mælt hefur verið. Það má ætla að mikið af laxi haldi til á svæðinu en einnig eru laxar á ferð í gegnum svæðið og upp í Svartá eða efri svæði Blöndu. Mesta skráða veiði af svæðinu eru rúmir 600 laxar laust fyrir síðustu aldamót og á síðustu 15 árum hefur veiði sveiflast frá 600 löxum og niður fyrir 100 laxa þegar veiði er dræm. Þeir hafa enga eina skýringu á því hvað veldur en nefna hvort vorflóð hafi spillt veiðistöðum og nýjir ekki fundist í staðinn eða hvort laxinn sé hreinlega horfinn af svæðinu.

„Við höfum ekki mikla trú á því síðastnefnda, laxveiði og laxgengd hefur aukist gríðarlega á neðsta svæði Blöndu og einnig á því efsta sem og í Svartá. Það er því ekki svo að laxinn sé horfinn af vatnasvæðinu heldur einmitt hið gagnstæða," skrifa þeir félagar og bæta við. „Eins er það reynsla okkar sem þekkjum Blöndu vel að þar sé töluvert af laxi, við) upplifum varla laxlausan dag þarna uppfrá. En við þekkjum ána reyndar mjög vel, betur en flestir, og viljum gjarnan deila með ykkur hvernig við veiðum hana, afhverju við veiðum hana þannig og hvað gefur okkur best."

Tvær ár í einni


Það sem undirrituðum þykir mjög eftirtektarvert varðandi veiðar á svæði 2 í Blöndu eru pælingar þeirra félaga um dagsveiflur í ánni, en vatnsmagn í Blöndu ræðst að langmestu leyti af því hversu miklu er keyrt í gegnum Blöndustöð á hverjum tíma. Rennsli árinnar er nefnilega ekki jafnt kvölds og morgna í Blöndu og „teljum við að þar sé að finna veigamikla skýringu á „laxleysi" svæðisins. Ekki einungis breytist vatnshæð heldur einnig allt straumlag í hyljum – m.ö.o. má segja að svæði 2 í Blöndu séu tvær mismunandi ár fyrir og eftir hádegi. Alla jafna er mun minna rennsli fyrir hádegi en eftir hádegi og verða menn því að forma sér veiðiáætlun eftir því," segir í veiðistaðalýsingunni og er af nákvæmni rakið hvað þetta þýðir fyrir hvern og einn veiðistað. Þar segir t.d. að fyrir hádegi, í minna vatni, reynist vel að sækja fast á stórar og djúpar breiður en eftir hádegi aukist rennsli og breyta þurfi um aðferðafræði samkvæmt því, en eftir því sem rennsli eykst verða sumir veiðistaðir á svæðinu sífellt betri og betri.

En ekki má gleyma öðrum þáttum, segja þeir félagar. „Mikið sólskin hefur töluverð áhrif á veiði í Blöndu. Þá er um að gera að finna háa bakka sem kasta skugga út í á [...] Bestu hugsanlegu skilyrði eru þegar þegar skýjað er og talsvert rennsli í ánni – þá er nánast öruggt að menn setji í fisk ..."

Á svæðum 2 og 3 í Blöndu eru engar hömlur á agni aðrar en þær sem í lögum eru, það er sumsé heimilt að beita maðki spún og flugu á þessum svæðum. Þeir félagar beita hins vegar fyrst og síðast flugu á svæði 2 og segja fluguveiði í Blöndu 2 stórskemmtilegan kost, og gefi ekkert síður en spúnn og maðkur. „Í langflestum tilfellum notum við flotlínu með sökktaum, en einnig bregðum við hitch-túbunum undir við og við. Oftast verða túbur fyrir valinu og þá gjarnan í stærðum 1 til 1,5 tomma að lengd. Þær túbur sem alltaf finnast í Blönduboxinu hjá okkur eru rauð og svört frances, þýsk snælda og sunray shadow – þess utan er algengt að sjá black sheep og silver sheep, black & blue, pool fly og ýmsar aðrar sérviskutúbur. Eftir að litur eykst í ánni gefur best að hafa annaðhvort svartar flugur eða appelsínugular – þessir litir virðast vekja mest viðbrögð í jökullitnum. Tvíhenda er þægilegt verkfæri á svæði 2 í Blöndu, en ekki bráðnauðsynleg, þokkalegir kastarar geta auðveldlega látið einhenduna nægja," segja Þorsteinn og Stefán Páll.

Hér má lesa veiðistaðalýsingu þeirra félaga í heild sinni þar sem m.a. er kennt að veiða einstaka veiðistaði.

Hér má kynna sér laus veiðileyfi fyrir sumarið, en töluvert er af leyfum á tilboði.

svavar@frettabladid.is






×