Bíó og sjónvarp

Líklegast að ég verði áfram í Los Angeles

Darri Ingólfsson.
Darri Ingólfsson. Mynd/Stefán
Darri Ingólfsson leikari flutti til kvikmyndaborgarinnar Los Angeles fyrir fjórum árum, staðráðinn í því að ná frama sem kvikmyndaleikari. Nú virðist sem sá draumur sé loks að verða að veruleika því hann hreppti stórt hlutverk í sjónvarpsþáttunum vinsælu um fjöldamorðingjann Dexter, auk þess sem hann fer með eitt helsta hlutverk kvikmyndarinnar Borgríki 2.

„Ég vissi að ég mundi enda annaðhvort í New York eða í Los Angeles að leiklistarnáminu loknu. Ég vissi bara ekki að það tæki mig sjö ár að komast þangað,“ segir Darri þegar hann er spurður út í líf sitt í Bandaríkjunum.

Hann er alinn upp í Garðabænum og stundaði framhaldsnám við Verzlunarskóla Íslands, þar sem hann tók þátt í uppsetningu leikfélagsins á Saturday Night Fever og Mambo Kings.

Það varð snemma auðsætt að leiklistin átti hug hans allan og því sótti hann um inngöngu í leiklistardeild Arts Ed School of Acting í London.

„Þar lærði maður alla klassíkina og fékk mjög góða alhliða menntun. Strax eftir útskrift fékk ég starf sem leikari við Donmar Warehouse-leikhúsið í London. Ég hafði þó alltaf mestan áhuga á kvikmyndaleik. Ástæðan fyrir því að ég fór út í leiklist til að byrja með var vegna þess að ég vildi búa til kvikmyndir. Ég sótti því um græna kortið og tók stefnuna á Bandaríkin.“

Sentist með pylsur

Darri flutti heim til Íslands á meðan hann beið eftir landvistarleyfinu og tók meðal annars að sér hlutverk í sjónvarpsþáttunum Mannaveiðar og kvikmyndinni Boðbera. Dvölin á Íslandi varð þó stutt og um leið og græna kortið var í höfn flutti Darri til Los Angeles.

„Rétt áður en ég flutti út hafði ég leikið í auglýsingu og sá peningur dugði til þess að kaupa bíl í L.A. og fyrir nauðsynjum í fjóra mánuði. Eftir það flakkaði ég á milli sófa hjá fólki sem ég kynntist. Í fyrstu starfaði ég við að keyra út skyndibita í Mustanginum mínum og sem þjónn á bar á Sunset Strip og þess á milli lék ég í ýmsum auglýsingum.“

Ári eftir flutningana til Bandaríkjanna fékk Darri sinn fyrsta umboðsmann og við tóku prufur fyrir hlutverk í stuttmyndum og kvikmyndum sem kostuðu lítið í framleiðslu. Nokkru síðar komst hann þó að hjá umboðsstofu og þá fóru hjólin loks að snúast.

„Ég kynntist stelpu sem starfar hjá stórri ráðningarskrifstofu og hún sagði mér að senda sér upplýsingarnar mínar, sem ég gerði. Daginn eftir var ég kallaður í prufu og það var fyrir hlutverk í sjónvarpsþáttunum Last Resort. Upphaflega átti ég bara að leika í einum þætti en handritshöfundunum þótti persónan mín greinilega skemmtileg og skrifuðu mig inn í alls sjö þætti,“ segir Darri og heldur áfram. „Stuttu eftir að tökum lauk sat ég á bar með vini mínum og við hliðina á okkur sat fólk sem var að tala um Last Resort. Vinur minn skipaði mér að kynna mig og það kom í ljós að maðurinn sem sat við hliðina á okkur, Jakob Israel, starfaði hjá umboðsskrifstofunni Coronel Group, sem þykir mjög öflug. Hann sagðist endilega vilja fá mig til þeirra og ég fór úr því að fá næstum engar prufur í að fara í fjórar til fimm prufur á viku.“

Mætti af fæðingardeildinni í tökur

Á þeim fjórum árum sem liðin eru frá því að Darri flutti út hefur hann komið sér ágætlega fyrir í Los Angeles og kveðst hann kunna vel við lífið í Kaliforníu, sem Bandaríkjamenn nefna gjarnan The Sunshine State, eða Sólarríkið á íslensku.

„L.A. er ekki borg, hún er staður. Borgin er full af mismunandi hverfum og kjörnum og þú getur í raun fundið þér þína eigin L.A. Þetta er alveg yndislegur staður og þar býr yndislegt fólk.“

Fljótlega eftir að hann fluttist út kynntist Darri núverandi eiginkonu sinni, Michelle Datuin, sálfræðingi og ljósmyndara. Parið eignaðist sitt fyrsta barn í lok júní, lítinn son er fékk nafnið Nolan Darri Ingolfsson. Fæðingin átti sér stað í miðjum tökum á Dexter og var Darri á þönum á milli fæðingardeildarinnar og tökustaðarins daginn sem drengurinn kom í heiminn.

„Þegar Michelle missti vatnið hringdi ég í framleiðanda þáttanna til þess að láta þá vita. Ég átti að vera í fyrstu töku dagsins morguninn eftir, en Michael [C. Hall, aðalleikari þáttanna] bauðst til þess að koma fyrstur inn svo ég fengi tíma með Michelle og barninu. Nolan fæddist klukkan hálfátta um morguninn og ég fékk að halda á honum í klukkustund áður en ég hentist af stað í tökur. Ég mætti alveg ósofinn, útataður í blóði eftir að hafa tekið á móti Nolan, og þegar ég settist niður í förðunarstólinn brotnaði ég alveg niður. Þetta var „crazy“ dagur,“ segir Darri er hann rifjar daginn upp. Tveimur vikum eftir fæðingu frumburðarins flaug hann svo heim til Íslands í tökur á Borgríki 2.

Tuskaður til inni í geymslugámi

Darri fer með hlutverk lögreglumannsins Hannesar í kvikmyndinni, sem er í leikstjórn Ólafs de Fleur. Hann lýsir persónu sinni sem metnaðargjörnum ungum manni sem ætlar sér að komast til metorða innan lögreglunnar.

„Hannes er sonur þekkts lögreglumanns og langar að ná frægð og frama innan lögreglunnar. Hann reynir við inntökuprófið í sérsveitinni en brotnar undan álaginu og endar þess í stað sem yfirmaður deildar sem kallast Innra eftirlit. Þar kynnist hann þeim persónum sem fólk þekkir úr fyrri myndinni.“

Eldri bróðir Darra, Ingólfur, er lögreglumaður og gat Darri leitað ráða hjá honum er hann undirbjó sig fyrir hlutverkið. „Brósi hefur auðvitað góða innsýn inn í þennan heim og hann gat frætt mig um ýmislegt tengt honum,“ segir hann.

Hann naut einnig liðsinnis Jóns Viðars Arnþórssonar hjá Mjölni við undirbúninginn og ber honum vel söguna – að mestu leyti.

„Jón Viðar var sérstakur ráðgjafi okkar við tökur. Hann tók mikinn þátt í þessu og setti meðal annars upp hanska og tuskaði mig til inni í geymslugámi fyrir eitt atriðið. Hilmir [Snær Guðnason] leikur yfirmann sérsveitarinnar og hann hafði virkilega gaman af því að fylgjast með okkur hinum kveljast,“ segir hann og hlær. „Annars er alveg frábært að fá að koma heim og vinna með öllu þessu hæfileikaríka fólki. Ég er mjög þakklátur fyrir það.“

Þegar Darri er að lokum spurður út í framtíðaráform segir hann markmið sitt að geta lifað á listinni og mögulega, í framtíðinni, framleitt eða leikstýrt eigin kvikmyndum. Hann sér þó ekki fram á að flytja aftur heim ásamt fjölskyldu sinni.

„Ég tel líklegast að ég verði áfram í Los Angeles en maður veit aldrei. Kannski fer mig að langa í slabb, kulda og rok í ellinni,“ segir hann að lokum og hlær.

Oft í hlutverki geðsjúklings

Darri hreppti hlutverk Olivers Saxon á lokaári sjónvarpsþáttanna um Dexter. Þáttaröðin er nú sýnd í sjónvarpi bæði hér á landi og erlendis og hefur frammistaða Darra vakið nokkra athygli. 

Saxon þessi er morðóður maður sem pyntar fórnarlömb sín í þar til gerðu herbergi og segist Darri ekki skilja af hverju hann sé svo oft ráðinn í hlutverk morðingjans.

„Ég hreppi oftar en ekki hlutverk geðsjúklingsins. Það er greinilegt að fólk sér einhvern „síkópata“ í augunum á mér, eins og ég er nú indæll,“ segir hann hlæjandi. 

Hann viðurkennir að fjölskyldu sinni þyki einkennilegt að sjá hann í jafn vinsælum þáttum og Dexter og segir frænku sína hafa áttað sig á því hver morðingi þáttanna er vegna þess að hún þekkti Darra á barnamynd. „Það var sýnd mynd af morðingjanum í æsku í þáttunum og þeir notuðu gamla mynd af mér. Eva, frænka mín, þekkti auðvitað barnið á myndinni og vissi því um leið hver morðinginn væri,“ útskýrir hann.

Mikil athygli hefur fylgt hlutverkinu og hefur Darri veitt fjölda viðtala vegna þess. „Ég reyni að sinna þessu eins og ég get því góð umfjöllun skiptir sköpum í þessum bransa. Ég hef líka tekið eftir því að fólk er farið að bæta mér sem vini á Twitter, Facebook og Instagram. Þetta er allt mjög skrítið en um leið skemmtilegt,“ segir hann.

Yfirheyrsla

Nafn: Snævar Darri Ingólfsson.

Fæðingardagur: 22. desember 1979.

Foreldrar: Ingólfur Sigurðsson snillingur og María Erla Másdóttir, frábær manneskja.

Systkini: Ingólfur Már Ingólfsson og Kara Ingólfsdóttir.

Uppeldisstaður: Garðabær og Borg óttans.

Uppáhaldsleikari: Hver sem getur hreyft við mér.

Uppáhaldslið í ensku deildinni: Hef nú bara enga skoðun á því máli.

Vestur- eða Austurströndin: West Coast.

Uppáhaldskvikmynd: Þær eru margar, til dæmis True Romance, Blade Runner, Full Metal Jacket og China Town.

Draumahlutverkið: Aðalhlutverk í mynd á við þær sem voru nefndar hér að framan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.