Lífið

Sjónvarpsþættir fyrir forvitna Íslendinga

Hanna Ólafsdóttir skrifar
Hilmar Björnsson, dagskrástjóri Skjás eins, hvetur alla sem hafa gaman að því að halda góða veislu til að sækja um að vera með í þáttunum.
Hilmar Björnsson, dagskrástjóri Skjás eins, hvetur alla sem hafa gaman að því að halda góða veislu til að sækja um að vera með í þáttunum. Fréttablaðið/anton
Borð fyrir 5 er nýr íslenskur þáttur sem hefst á Skjá einum í haust. Átta pör verða valin úr hópi umsækjenda til að halda þriggja rétta matarboð á heimili sínu fyrir þrjá valinkunna dómara.

Að sögn Hilmars Björnssonar, dagskrástjóra Skjás eins, er leitast eftir því að hafa pörin sem taka þátt sem ólíkust og að margt fleira en góður matur þurfi til að þess sigra keppnina. „Til þess að heilla dómarana þarftu að hugsa út fyrir boxið, koma dómurunum á óvart og halda góða veislu. Dómararnir gefa síðan stig fyrir stemmninguna, matinn, vínið og umgjörðina á veislunni almennt.“

Búið er að opinbera nafnið á einum dómaranna í þáttunum en það mun vera Svavar Örn Svavarsson, hárgreiðslu- og útvarpsmaður á K100. Hverjir hinir dómararnir tveir eru kemur í ljós á næstu dögum en að sögn Hilmars verður annar þeirra kokkur.

Hilmar telur að þættirnir ættu að höfða til Íslendinga, sem hann segir að séu upp til hópa mjög forvitnir. „Ég held að fólk hafi mjög gaman að því að sjá inn á heimili fólks og fylgjast með hvernig það heldur matarboð í mjög krefjandi aðstæðum.“

Ekki eru gerðar neinar aðrar kröfur til umsækjenda en að þeir hafi metnað fyrir því að halda skemmtilega veislu og hann hvetur pör, jafnt ung sem aldin, til að sækja um.

„Það verður áhugavert að sjá hvað fólk mun bjóða upp á en það mun fá alveg frjálsar hendur varðandi veitingar og annað. Við viljum helst fá fólk á öllum aldri og með sem fjölbreyttastan bakgrunn til að sækja um. Það er líka til mikils að vinna því sigurparið mun hljóta veglegan vinning.“

Auglýst verður eftir umsækjendum í þættina í júlí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.