Sport

Stórglæsileg met hjá Júlían

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Júlían J. K. Jóhannsson.
Júlían J. K. Jóhannsson.
Júlían J. K. Jóhannsson náði ekki að vinna Norðurlandameistaratitilinn í kraftlyftingum í sínum flokki þrátt fyrir að hafa sett tvö Íslandsmet, þar af stórglæsilegt met í réttstöðulyftu.

Júlían gerði ógilt í öllum tilraunum sínum í hnébeygju sem þýddi að hann fékk ekki gilt heildarskor. Hann reyndi fyrst við 327,5 kg og svo tvívegis við 332,5 kg.

Júlían keppir í yfirþungavigt í flokki 23 ára og yngri og er Íslandsmethafi í öllum greinum. Met hans í hnébeygju er 330 kg.

Hann bætti Íslandsmetin sín í bæði í bekkpressu og réttstöðulyftu. Hann lyfti 247,5 kg í bekkpressu og bætti metið um tvö og hálft kíló.

Júlían gerði sér svo lítið fyrir og stórbætti metið sitt í réttstöðulyftu. Hann lyfti 350 kg en gamla metið var 327,5 kg. Það setti hann á Evrópumeistaramóti unglinga í Danmörku í fyrra þegar hann vann gull í sínum flokki. Júlían varð einnig heimsmeistari unglinga í réttstöðulyftu síðar á árinu er hann lyfti 325 kg.

Keppt var í fjölmörgum flokkum á mótinu sem fór allt fram í gær og má sjá úrslitin hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×