Stígkrampi Stígur Helgason skrifar 5. júlí 2013 07:30 Þegar ég var smástrákur hlupu stundum í mig óknyttir, eins og gekk, og ég hringdi símaöt. Sjaldnast voru þau frumleg – það var til dæmis vinsælt að hafa samband við verslanir og spyrja starfsmenn einkennilegra spurninga um vöruúrval og láta þá hlaupa til og frá í allskyns erindisleysu. Ha ha. Yfirleitt voru fleiri áheyrendur að símtalinu – viðhlæjendur væru þeir kallaðir ef þeir hefðu ekki alltaf beitt sig hörðu til að halda rokunum niðri. Klassískast var nafnagrínið. Manni var tamt að taka upp símann, hringja í fimm stafa númer af handahófi og spyrja hvort Bolli væri heima. „Enginn Bolli? En undirskál?“ Svo skellti maður á og sturlaðist úr hlátri. Það var auðvelt að vera lítill. Þetta gerði ég án þess að átta mig á kaldhæðninni sem fólst í því að maður sem héti Stígur vogaði sér að skopast að nöfnum annarra. Fá samþykkt íslensk mannanöfn bjóða nefnilega upp á eins mikið grín og mitt eigið. Einmitt þess vegna þróaði ég snemma með mér býsna þykkan skráp sem engir útúrsnúningar bitu á, og ég geri ráð fyrir að það sama eigi við um þá 35 sem deila með mér eiginnafni. „Stígur lýgur meira en hann mígur,“ var frasi sem náði snemma fótfestu í mínu nánasta umhverfi þótt hann hafi verið – og sé enn – fullkomlega órökréttur, enda lygar og þvaglát algjörlega ósambærilegar gjörðir og útilokað að leggja á þær sama mælikvarða. En hann var auðvitað ekki illa meintur, ekki frekar en það þegar maður var kallaður Göngustígur í fyrsta sinn eða það sjöþúsundasta, og ekkert af þessu tók maður nærri sér. Sumpart ber fólk nöfn einmitt svo að hægt sé að snúa upp á þau. Og spaugið er vissulega mishugvitssamlegt. „Ef Stígur væri plataður til að taka að sér kött, væri það þá Stígvélaði kötturinn?” spurði hnyttinn kollegi minn eitt sinn, við nokkra kátínu mína og annarra viðstaddra. Svo getur það líka verið torrætt og valdið heilabrotum. Þannig barst mér til dæmis tölvupóstur í gær frá virtum og málsmetandi þjóðfélagsþegn á áttræðisaldri sem hófst á orðunum: „Það var ánægjulegt, Stífur.“ Ég vona að það hafi verið innsláttarvilla. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Stígur Helgason Mest lesið Hvað gerðist þegar konan talaði? Jóna Hrönn Bolladóttir,Bjarni Karlsson Skoðun Geðheilsuskatturinn Halla Gunnarsdóttir Skoðun Fjölbreytileiki í íslensku skólakerfi: Erum við á réttri leið? Inga Sigrún Atladóttir Skoðun Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Vatnamálalögin og Hvammsvirkjun: Almannaheill ? Mörður Árnason Skoðun
Þegar ég var smástrákur hlupu stundum í mig óknyttir, eins og gekk, og ég hringdi símaöt. Sjaldnast voru þau frumleg – það var til dæmis vinsælt að hafa samband við verslanir og spyrja starfsmenn einkennilegra spurninga um vöruúrval og láta þá hlaupa til og frá í allskyns erindisleysu. Ha ha. Yfirleitt voru fleiri áheyrendur að símtalinu – viðhlæjendur væru þeir kallaðir ef þeir hefðu ekki alltaf beitt sig hörðu til að halda rokunum niðri. Klassískast var nafnagrínið. Manni var tamt að taka upp símann, hringja í fimm stafa númer af handahófi og spyrja hvort Bolli væri heima. „Enginn Bolli? En undirskál?“ Svo skellti maður á og sturlaðist úr hlátri. Það var auðvelt að vera lítill. Þetta gerði ég án þess að átta mig á kaldhæðninni sem fólst í því að maður sem héti Stígur vogaði sér að skopast að nöfnum annarra. Fá samþykkt íslensk mannanöfn bjóða nefnilega upp á eins mikið grín og mitt eigið. Einmitt þess vegna þróaði ég snemma með mér býsna þykkan skráp sem engir útúrsnúningar bitu á, og ég geri ráð fyrir að það sama eigi við um þá 35 sem deila með mér eiginnafni. „Stígur lýgur meira en hann mígur,“ var frasi sem náði snemma fótfestu í mínu nánasta umhverfi þótt hann hafi verið – og sé enn – fullkomlega órökréttur, enda lygar og þvaglát algjörlega ósambærilegar gjörðir og útilokað að leggja á þær sama mælikvarða. En hann var auðvitað ekki illa meintur, ekki frekar en það þegar maður var kallaður Göngustígur í fyrsta sinn eða það sjöþúsundasta, og ekkert af þessu tók maður nærri sér. Sumpart ber fólk nöfn einmitt svo að hægt sé að snúa upp á þau. Og spaugið er vissulega mishugvitssamlegt. „Ef Stígur væri plataður til að taka að sér kött, væri það þá Stígvélaði kötturinn?” spurði hnyttinn kollegi minn eitt sinn, við nokkra kátínu mína og annarra viðstaddra. Svo getur það líka verið torrætt og valdið heilabrotum. Þannig barst mér til dæmis tölvupóstur í gær frá virtum og málsmetandi þjóðfélagsþegn á áttræðisaldri sem hófst á orðunum: „Það var ánægjulegt, Stífur.“ Ég vona að það hafi verið innsláttarvilla.