Íslenski boltinn

Ekki bara skólinn og foreldrar sem eiga að ala upp börnin

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gunnleifur Gunnleifsson.
Gunnleifur Gunnleifsson.
„Foreldrar treysta okkur fyrir börnunum sínum og við viljum standa undir því trausti,“ segir Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður karlaliðs Breiðabliks og íslenska landsliðsins. Gunnleifur gegnir nýju hlutverki frístunda- og forvarnafulltrúa hjá knattspyrnudeildinni.

„Við viljum að allir séu glaðir og ánægðir hjá félaginu okkar. Svo viljum við ala upp góða samfélagsþegna ásamt því að ala upp afreksfólk,“ segir markvörðurinn. Hann segir verkefnið hugarfóstur formanns knattspyrnudeildar, Borghildar Sigurðardóttur. Hún minnir á að ekki sé óalgengt að krakkar æfi fjórum til fimm sinnum í viku hjá félaginu. Það sé þeirra annað heimili.

„Því þarf félagið að hafa metnað til þess að leggja góðar línur. Það eru ekki bara skólinn og foreldrar sem eiga að sinna þessu. Við verðum að viðurkenna uppeldishlutverk okkar,“ segir Borghildur.

Auka á fræðslu bæði hjá iðkendum og foreldrum þeirra og kennir þar ýmissa grasa. Borghildur segir mikilvægt að geta leitað til afreksmanna og fyrirmynda hjá félaginu. Gunnleifur stýri því verkefni.

„Það vita allir hvað er hollt og óhollt. Það þýðir samt ekki að við förum eftir því,“ segir Borghildur. Í fyrra hafi leikmenn úr meistaraflokkum félagsins mætt á æfingar hjá öllum yngri flokkum og rætt við krakkana um mataræði.

„Þau eru búin að heyra þetta hundrað sinnum. En þegar Finnur Orri (Margeirsson) eða Greta Mjöll (Samúelsdóttir), leikmenn Blikanna, útskýra þetta þá taka börnin mark á því,“ segir Borghildur. Hún segist vita til þess að fjölmargir krakkar hafi farið eftir leiðbeiningunum í marga mánuði eftir heimsóknirnar.

Borghildur minnir á að það að æfa fótbolta snúist um meira en að ætla að verða atvinnumaður.

Mynd/Ernir
Forvarnir vegna vímuefna Gunnleifi hjartans mál

„Þarna eru krakkar með áhugamál, sem sækja í góðan félagsskap og umgjörð okkar þarf að miða við það. Það er líka á okkar ábyrgð að búa til stjórnarmenn, fjölmiðlafulltrúa, þjálfara og dómara framtíðarinnar.“

Gunnleifur segir félagið vinna að því að bæta forvarnir og viðbrögð er varðar einelti, kynferðisbrot, meiðsli ungra iðkenda, brottfall vegna meiðsla og brottfall almennt. Einnig sé markmiðið að fræða bæði börn og foreldra um áhrif áfengis- og vímuefnaneyslu á líkamann.

„Það er mitt hjartans mál enda hef ég mikla reynslu af því,“ segir Gunnleifur. Fræðslan skipti gríðarlega miklu máli og þá sérstaklega í elstu flokkum hjá báðum kynjum.

„Félögin hafa staðið fyrir fræðslu um áfengisnotkun og hvernig fer fyrir íþróttafólki sem fer yfir strikið. Þó þarf líka að fræða krakkana nákvæmlega um hvað t.d. hálfur lítri af vodka gerir við skrokkinn; blóðið, frumurnar og vöðvana.“

Bliki Gunnleifur er uppalinn hjá HK í Kópavogi en ver í dag mark nágrannanna. Hann gerir ýmislegt fleira en að verja markið hjá karlaliði félagsins. Fréttablaðið/Anton
Kynna einkenni veðmálafíknar fyrir foreldrum

Eitt nýjasta vandamál íþróttahreyfingarinnar er veðmálastarfsemi. Veðjað er á leiki í íslenskri knattspyrnu um allan heim og miklir fjármunir í spilunum. Veðjað er um allt frá því hvernig leikur fari og til þess hvort lið fái á sig vítaspyrnu í leikjum. Hver sem er getur veðjað á leiki á netinu.

„Aðgengi að þessu er orðið svo mikið en þekkingin á afleiðingunum er ekki jafnmikil. Foreldrar og krakkar gera sér kannski ekki alveg grein fyrir hve langt leidd þau geta orðið,“ segir Borghildur og Gunnleifur tekur dæmi:

„Ef unglingur er farinn að fikta við eitthvað slíkt er mikilvægt að foreldrarnir séu meðvitaðir um einkennin enda sjá þeir börnin mun meira en við.“

Þá er sú hætta að veðmálastarfsemi hafi áhrif á spilamennsku leikmanna. Í versta falli gætu leikmenn freistast til að hafa áhrif á útkomu leikja eða einstök atvik í leikjum.

„Við höfum sett skilyrði í þjálfarasamninga varðandi veðmálin og ætlum að setja þau í leikmannasamninga líka,“ segir Borghildur. Varðandi einelti og kynferðislegt ofbeldi sé svo afar mikilvægt að ákveðin ferli séu til staðar ef einhvers slíks verður vart innan félagsins.

„Við erum öll sjálfboðaliðar og það er gjarnan skipt um aðila,“ segir Borghildur um kollega sína í stjórnum deilda Breiðabliks. Fæstir endist lengi í þeim hlutverkum.

„Þá þarf ekki að finna hjólið upp á nýtt. Við viljum hafa skýra og skriflega ferla og tilnefna aðila til að sinna þeim,“ segir Borghildur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×