Íslenski boltinn

Eiga að fylgjast með vandræðagemsunum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Daníel
Í undirbúningi sínum fyrir leiki eiga íslenskir knattspyrnudómarar að hugleiða „vandræðagemsa" og „síbrotamenn". Þetta kemur fram í áhersluatriðum Dómaranefndar KSÍ fyrir tímabilið 2013.

Mest áhersla er lögð á að ná fram meiri samræmi og samkvæmni hvað varðar nokkur atriði eins og fjallað var um á fundi dómaranefndar UEFA í Róm í febrúar. Meðal atriða eru:

„Hópast um dómarann" - Ef leikmenn hópast að dómara til að reyna að hafa áhrif á ákvörðun hans skal spjalda a.m.k. einn leikmann. Sömuleiðis ef leikmaður leggur á sig langa leið til að mótmæla

„Leikmenn sem ýkja" - Dómarar skulu fylgjast vel með leikmönnum sem ýkja afleiðingar líkamlegra snertinga

„Hendi - ekki hendi" - Hafa skal í huga hvort um hreyfingu handar í átt að knetti sé að ræða og fjarlægð mótherja frá knetti. Alltaf skal áminna leikmann sem ef skot hafnar í hönd hans innan teigs og dæmd er vítaspyrna.

Töluvert er fjallað um viðbótartíma í áherslunum. Þar kemur meðal annars fram að dómarar eiga að leyfa hornspyrnum og aukaspyrnum að klárast ef þær eru dæmdar áður en viðbótartími er runninn út. Þannig sé það í tilfelli vítaspyrna og hornspyrnur og aukaspyrnur skuli meðhöndla á sama hátt.

Þá er einnig brýnt fyrir dómurum að virða þau fyrirmæli að sá viðbótartími sem fjórði dómari sýni í lok leiks sé lágmarksviðbótartími. Þannig skuli dómarar t.d. ekki flauta leikinn af þegar 1,55 mínútum er lokið af þeim 2,00 mínútum sem fjórði dómari sýndi á spjaldi sínu.

Þá skulu dómarar, í undirbúningi sínum fyrir leiki, hugleiða  taktík liðanna, „vandræðagemsana", „síbrotamennina" og hvernig sé best að halda einbeitingunni í gegnum leikinn. Að lokum eru dómarar minntir á hversu mikill heiður það sé að dæma knattspyrnuleik.

„Dómaratríóið er á besta staðnum á vellinum til þess að njóta þess að fylgjast með góðum knattspyrnuleik!" segir í niðurlögum áhersluatriðanna 2013.

Áhersluatriðin í heild sinni má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×