Innlent

Edda Sif segir að Skaupið hefði mátt vera fyndnara

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Edda Sif Pálsdóttir, íþróttafréttamaður á RÚV og einn aðalkarakteranna úr Áramótaskaupinu, segir að sér hafi komið það á óvart að hve miklu leyti Skaupið hefði snúist um sig. Í Skaupinu voru fjölmörg atriði þar sem gert var grín að feðginunum Páli Magnússyni og Eddu.

„Ég áttaði mig engan veginn á því að fólk væri eitthvað svo mikið að hugsa um þetta," sagði Edda Sif í samtali við Vísi. „Þetta var ekki þannig að ég væri eitthvað móðguð eða fundist þetta eitthvað óþægilegt," segir hún. Hún hafi aftur á móti fundið fyrir því að fólk í kringum sig hafi verið að hugsa hvers vegna þetta efni væri tekið fyrir aftur og aftur.

Nauðganir og ofbeldi ekki fyndið

„En ég hef aldrei tekið þetta pabbagrín nærri mér, mér finnst það bara fyndið," segir Edda Sif. Það hafi aftur á móti verið annað efni sem tekið var fyrir í Skaupinu sem sé að sínu mati ekki neitt efni til að gera grín að. Þar nefnir Edda Sif nauðganir og líkamsárásir, en nokkuð var fjallað um nauðganir á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í þessu Áramótaskaupi.

Aðspurð hvaða einkunn Edda Sif myndi gefa Skaupinu á kvarðanum 0-10 segist Edda vissulega eiga eftir að horfa á það í annað sinn. „En það olli mér smá vonbrigðum grínlega séð, ég hefði alveg viljað hlægja aðeins meira," segir Edda Sif.

Atriðin með Steini Ármanni hafi verið fyndin og Skaupið hafi oft átt fína spretti. „En mér hefur oft fundist það vera betra. Á skalanum einn til tíu þá myndi ég segja svona fimm," segir hún.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×