Lífið

Vill bæta heiminn

Sylvía Erla Scheving söng sig inn í hug og hjörtu þjóðarinnar í úrslitum Söngvakeppninni. Sylvía er rétt að byrja. "Mamma segir að ég hafi verið sólargeisli sem barn og að ég sé ótrúlega góður unglingur. Ég elska að vera á meðal fólks og því hélt hún að ég yrði algjört tryppi og sæist ekki meir eftir að ég byrjaði í framhaldsskóla. Ég er hins vegar svo heimakær að ég vil helst alltaf vera heima með fjölskyldunni,“ segir Sylvía og brosir breitt. Hún segist ekki hafa orðið vonsvikin að standa ekki uppi sem sigurvegari í Söngvakeppninni í Hörpu. "Ég er fyrst og fremst þakklát fyrir að fá þetta tækifæri og fyrir það hvað ég kynntist mörgum. Nú vita landsmenn hver ég er og margir listamannanna komu sérstaklega til að segja mig hafa sungið vel. Það er besta hrós sem hægt er að fá. Lífið snýst líka um að búa til minningar og Eurovision er ein ljúf sem fer í reynslubankann.“ Fékk það besta frá báðum Sylvía segist hafa vitað frá blautri barnæsku að pabbi sinn væri Íþróttaálfurinn. "Ég ólst samt ekki upp í Latabæ eins og margir gætu haldið. Pabbi hélt mér markvisst frá Latabæ því hann vildi ekki að ég festist í hlutverki Sollu stirðu eins og hann hefur gert í hlutverki Íþróttaálfsins. Ég vil líka gera hlutina á eigin forsendum en ekki sem dóttir Íþróttaálfsins eða að fólk haldi að ég hafi orðið eitthvað vegna hans eða sem Solla stirða. Sem tónlistarmaður vil höfða til allra aldurshópa eins og Páll Óskar frændi minn en ekki verða að eilífu poppstjarna fyrir litlu börnin.“ Að sögn Sylvíu ólst hún upp við hefðbundið og afar skemmtilegt fjölskyldulíf. "Það kemur eflaust á óvart að mamma er mun heilsusamlegri en pabbi. Við reynum auðvitað alltaf að borða hollt því það er best fyrir mann en við borðum við allskonar mat og alls ekki allt grænt. Ég er ekki heldur alin upp við að mega bara fá íþróttanammi og fæ mér stundum sælgæti þótt ekki sé nammidagur,“ segir Sylvía og skellir upp úr. "Ég á enga uppáhalds persónu úr Latabæ en pabbi er náttúrlega uppáhaldið mitt. Ég hef samt tileinkað mér það veganesti úr Latabæ að taka alltaf með mér ávexti í skólann,“ segir Sylvía sem er á fyrsta ári í Versló. "Ég ólst upp við að standa með sjálfri mér, sama hvað aðrir segja. Ég hef alltaf verið sterkur karakter, jákvæð, ákveðin og þrjósk. Þegar ég stefni á eitthvað legg ég allt í sölurnar og er afar metnarfull. Það hef ég bæði frá pabba og mömmu; ég fékk það besta frá báðum.“ Vill hjálpa til í heiminum Sylvía stundar nám í klassískum söng hjá Alinu Dubik og söngnám í Söngskóla Maríu Bjarkar. Í sumarfríinu hyggst hún leggja land undir fót til enn frekara söngnáms. "Ég hef samið eigin tónlist síðan ég var smástelpa en er enn svo ung að ég vil þróast áfram sem tónlistarmaður áður en ég læt lögin mín heyrast,“ segir Sylvía sem æfir sig heima í bílskúr. "Pabbi byggði bílskúr fyrir bílana sína en var svo góður að eftirláta mér skúrinn fyrir söngaðstöðu. Ég hef alltaf verið óhrædd við að koma fram og veit ekki hvaðan það sjálfstraust og hugrekki kemur. Þetta snýst um að trúa á sjálfan sig. Þá getur maður allt.“ Sylvía hefur háleit markmið þegar hún lítur til framtíðar sinnar sem listamanns. "Ég vil nota rödd mína til að bæta heiminn og að fólk muni eftir mér fyrir að hafa látið gott af mér leiða. Ég verð oft brjáluð yfir því óréttlæti og eymd sem ég sé í fréttum og hefur alltaf langað að hjálpa til í heiminum því svo fáir gera það. Ég vil feta í fótspor Michaels Jackson og Bítlana sem sungu um frið og lít upp til fólks sem axlar ábyrgð,“ segir Sylvía sem ætlar einnig að stofna sjóð fyrir lesblind börn á Íslandi. "Ég er lesblind og veit að það skiptir sköpum fyrir lesblind börn að geta sótt aukatíma. Ég er líka meðvituð um að það eru ekki öll börn jafn heppin og ég að hafa þess kost. Því vil ég að lesblind börn geti sótt í sjóðinn því skólinn dugar þeim ekki einn til að vinna á lesblindunni.“ Ást við fyrstu sýn Sylvía verður sautján þann 27. febrúar. "Þann daginn fæ ég bílpróf og get ekki beðið. Ég hlakka mikið til frelsisins og að þurfa ekki lengur í strætó eða biðja um skutl,“ segir Sylvía sem hefur augastað á nýrri Volkswagen-bjöllu sem fyrsta bíl. "Mamma er svo forsjál. Frá því ég var lítil hefur hún lagt allan pening sem ég fengið í gjafir inn á bankabók. Því á ég nú orðið fyrir nýjum bíl en reikna með að vinna baki brotnu í ár til viðbótar vegna þess að Bjallan er svo dýr. Í millitíðinni fæ ég kannski lánaðan bíl hjá mömmu og pabba,“ segir Sylvía brosmild. Um helgina eru tvö ár síðan Sylvía og kærastin Róbert Freyr Samaniego byrjuðu saman og upp á það ætla þau að halda. "Ég elska Róbert meira en allt og við ætlum alltaf að eiga hvort annað. Það ást við fyrstu sýn þegar ég sá hann fyrst. Okkur þykir skemmtilegast að fara í bíó, út að borða og að spila í hópi góðra vina.“ Um helgina ætlar Sylvía líka að lesa undir próf. "Ég læri mikið vegna lesblindunnar. Það á eftir að koma sér vel í framtíðinni því þá kann ég betur að leggja hart að mér. Lesblindan kom í ljós í níunda bekk. Þá fékk ég yfir átta í meðaleinkunn en sá fram á að komast ekki í Versló því þar er krafist níu í meðaleinkunn,“ segir Sylvía sem tók ákvörðun um að taka sig verulega á til að ná takmarki sínu. "Mig hafði dreymt um að komast í Versló síðan ég var sex ára og barnapían okkar var í Versló. Lesblindan hafði aldrei háð mér en þegar ég hugsaði til baka átti ég oft erfitt með að muna hvað ég las og muna hvað við mig var sagt í fyrirmælum. Lesblinda er miklu erfiðari en fólk gæti grunarð en með mikilli vinnu eru allir vegir færir.“





Fleiri fréttir

Sjá meira


×