Viðskipti innlent

Rýmka heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga í óskráðum bréfum

Magnús Halldórsson skrifar
Gunnar Baldvinsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða og framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins.
Gunnar Baldvinsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða og framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins.
Ríkisstjórnin hefur samþykkt að gera breytingar á lögum um fjárfestingaheimildir lífeyrissjóða, sem gerir þeim kleift að stórauka fjárfestingar sínar í óskráðum verðbréfum. Formaður Landssamtaka lífeyrissjóða fagnar boðuðum breytingum, en frumvarp um þetta efni er nú til meðferðar hjá þingflokkum stjórnarflokkanna.

Breytingin sem nú er í bígerð, og verður lögð fyrir þingið innan tíðar, felur í sér að heimild lífeyrissjóðanna til þess að fjárfesta í óskráðum verðbréfum verði aukin úr 20 prósent af heildareignum í 25 prósent.

Til marks um hversu mikið fé það er, sem heimildaraukningin tekur til, í hlutfalli við heildareignir lífeyrissjóðanna, þá nemur hún um 120 milljörðum króna.

Gunnar Baldvinsson, formaður stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða og framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, segir breytingar á þessum fjárfestingaheimildum vera mikilvægar við núverandi aðstæður.

„Það eru nokkrir sjóðir sem eru komnir í efri mörkin þegar kemur að fjárfestingum í óskráðum verðbréfum, og rýmkun á þessum heimildum mun auðvelda þeim að fjárfesta við þær aðstæður sem eru í hagkerfinu núna. Möguleikar til fjárfestinga í skráðum verðbréfum eru takmarkaðir, og fjármagnshöftin eru einnig til þess fallin að takmarka möguleika til fjárfestinga, þannig að þessi rýmkun á heimildum getur gert mikið gagn fyrir sjóðina og þjóðfélagið allt."

Gunnar segir að lífeyrissjóðir vilji oftast nær eiga sem mest í skráðum verðbréfum, en í ljósi aðstæðna hér á landi sé einnig gott að eiga traustar óskráðar eignir.

„Skráðar verðbréfaeign hér á landi gufaði næstum alveg upp í hruninu, á meðan óskráða verðbréfaeignin hélt næstum alveg verðgildi sínu. Ég er viss um að lífeyrissjóðirnir muni vanda til verka þegar kemur að fjárfestingum í óskráðum verðbréfum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×