Bílar

Ferðaklúbburinn 4x4 30 ára

Finnur Thorlacius skrifar
Þrjú þúsund félagar - Skáli í eigu klúbbsins - Skipulagðar ferðir - Jeppasýningar - Félagslíf.

Stofnfundur samtaka áhugamanna um ferðalög og búnað fjórhjóladrifsbifreiða var haldinn 10. mars 1983, fyrir rétt um 30 árum. Upphafið má rekja til þess að áhugi hafði kviknað í sameiginlegum ferðum jeppamanna um stofnun einhverskonar félagsskapar á þessu sviði. Heitið Ferðaklúbburinn 4x4 varð fyrir valinu á félagsskap þennan strax á fyrsta fundi. Fljótlega eftir stofnun félagsins varð ljóst að brýnt mál yrði að reyna að ná fram rétti jeppamanna til að aka um á jeppum sem breytt hefði verið til aukins notagildis til ferðalaga utan hins hefðbundna vegakerfis. Reynslan hafði sýnt að stærri hjólbarðar hentuðu mun betur til aksturs á snjó og víða utan alfaravega. Í maímánuði 1984 var stofnuð nefnd innan Ferðaklúbbsins sem sjá skyldi um viðræður við Bifreiðaeftirlit Ríkisins. Samin var fyrsta reglugerðin á þessu sviði, sem nefnd var "hugmynd að lausn dekkjamálsins". Eftir það hafa miklar breytingar orðið á reglum varðandi breytingar á bílum, klúbbnum til hagsbóta.

Samstarf við náttúruverndarsamtök

Nokkuð ljóst er að ef samtakamáttur félags eins og Ferðaklúbbsins 4x4 hefði ekki notið við væri jeppamenning Íslendinga öðruvísi en hún er í dag. Strax á fyrstu árum Ferðaklúbbsins 4x4 spruttu upp miklar umræður um náttúruverndarmál. Misjafnlega var tekið undir skoðanir klúbbsins í Náttúruverndarráði og víðar í upphafi, en á síðari árum hefur tekist mjög góð samvinna meðal klúbbsins og hinna ýmsu náttúruverndarsamtaka og hafa félagar klúbbsins farið margar ferðir þeim til aðstoðar, t.d. landgræðsluferðir í Þórsmörk og ýmsar uppgræðsluferðir.

Skáli byggður

Snemma á árinu 1985 var byrjað að ræða hugsanlega skálabyggingu á vegum Ferðaklúbbsins 4x4. Nokkrir staðir voru skoðaðir og reynt að semja við viðkomandi yfirvöld, en að lokum tókust samningar við landeigendur svæðis fyrir sunnan Hofsjökul sem kallast Kisubotnar og reisti Ferðaklúbburinn 4x4 þar gríðarlega myndarlegan fjallaskála sem hlaut nafnið "Setrið" Síðar hafa deildir Ferðaklúbbsins gert afnotasamninga um nokkra gangnamannaskála á hálendinu til notkunar að vetrarlagi.

Fjöldi jeppasýninga og ferða

Ferðaklúbburinn 4x4 hefur haldið margar jeppasýningar gegnum árin. Fyrsta sýning var haldin í porti Austurbæjarskólans árið 1985. Næstu þrjár sýningar voru haldnar í Reiðhöllinni í Víðidal, árin 1987,1989 og 1991. Síðar var haldið með sýningarnar í Laugardalshöllina og voru þær árin 1993, 1995, 1998 og sú síðasta árið 2001. Eftir það voru sýningarnar fluttar í Fífuna í Kópavogi. Hafa sýningarnar aukið hróður Ferðaklúbbsins til muna og þótt hin besta skemmtun. Nokkrar stórar hópferðir hafa verið farnar á vegum félagsins. Sú fyrsta, árið 1987 sem nefnd var 100 bíla ferðin. Skyldi ekið norður Sprengisand, en ferðin mistókst. Síðar var farin samvinnuferð með Bílabúð Benna sem kölluð var Jeppadagur Fjölskyldunnar. Milli 800 og 1000 bílar tóku þátt og var ekið til Nesjavalla. Önnur 100 bíla ferð var árið 1997 og var þá lokið við ferðina yfir Sprengisand. Aldamótaferðin svokallaða var árið 2000. Þá var ekið yfir hálendið austur á land. Efnt hefur verið til fleiri ferða af ýmsum toga.

Þrjú þúsund félagar

Starfsemi Ferðaklúbbsins 4x4 hefur verið mjög öflug frá upphafi. Haldnir eru félagsfundir fyrsta mánudag hvers mánaðar allan veturinn, oftast á Hótel Loftleiðum. Einnig er opið hús í aðsetri félagsins að Eirhöfða 11 öll fimmtudagskvöld. Nokkrar landsbyggðardeildir hafa verið stofnaðar í félaginu. Nú eru starfandi Vesturlandsdeild, Vestfjarðadeild, Húnvetningadeild, Skagafjarðardeild, Eyjafjarðardeild, Húsavíkurdeild, Austurlandsdeild, Hornafjarðardeild, Suðurlandsdeild og Suðurnesjadeild. Félagsstarfið er fjölbreytt. Starfandi er Umhverfisnefnd, Tækninefnd, Skálanefnd, Ritnefnd, Vefnefnd, Internetnefnd, Hjálparsveit og Fjarskiptanefnd ásamt fleiri nefndum sem sinna hinum ýmsu verkefnum fyrir klúbbinn. Félögum í Ferðaklúbbnum 4x4 hefur fjölgað ört á síðustu árum. Virkir félagar eru nú ríflega þrjú þúsund víðsvegar um landið. Þeir sem áhuga hafa á að kynnast starfsemi klúbbsins nánar eru hjartanlega velkomnir á félagsfundi, sem haldnir eru fyrstu mánudaga í mánuði að Hótel Natura (Loftleiðum) klukkan 20.00. Einnig má kynna sér starfsemina á heimasíðu klúbbsins, www.f4x4.is. Nú á afmælisárinu verður farin stórferð í mars um Vatnajökul, þveran og endilangan og endað á Hornafirði. Árshátið verður haldin í Turninu í Kópavogi. Bókin saga Ferðaklúbbsins 4x4 í 30 ár mun koma út í stóru broti með haustinu og þá verður einnig stórsýning jeppa í Fífunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×