Handbolti

ÍR-ingar fóru með bikarinn í Breiðholtslaug

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Heimasíða ÍR
„Að sjálfsögðu fórum við í sund," sagði Runólfur Sveinsson, formaður handknattleiksdeildar ÍR, í samtali við Vísi í morgun.

ÍR-ingar urðu um helgina bikarmeistarar í handbolta og fóru með bikarinn upp í Breiðholtslaug.

Forsaga málsins er sú að eftir að Leiknir varð Reykjavíkurmeistari karla í knattspyrnu fóru leikmenn liðsins í laugina að næturlagi og skildu bikarinn sinn eftir þar.

Fyrir úrslitaleikinn um helgina sendu starfsmenn laugarinnar ÍR-ingum kveðju með þeim skilaboðum að þeir væru velkomnir í sund - en á opnunartíma.

„Við stilltum okkur upp á sundlaugarbakkanum og tókum nokkrar myndir. Það fóru ekki allir út í laugina en einhverjir skelltu sér," sagði Runólfur.

ÍR-ingar fögnuðu svo bikarmeistaratitlinum sínum í félagsheimili sínu í gær og voru þar langt fram eftir nóttu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×