Sport

Serena Williams meistari í sjötta sinn í Miami

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Serena Williams.
Serena Williams. Mynd/AP
Serena Williams setti nýtt með með því að vinna Sony Open tennismótið í Miami í sjötta sinn í nótt þegar hún vann Mariu Sharapovu í úrslitaleik í þremur settum.

Maria Sharapova vann fyrsta settið 6-4 en Serena Williams svaraði með því að vinna næstu tvö sett, 6-3 og 6-0, og tryggja sér sigurinn. Aðeins þrjár aðrar konur hafa náð að vinna sama atvinnumannamót sex sinnum í nútímatennis en hinar eru Chris Evert, Steffi Graf og Martina Navratilova.

Serena Williams, sem er í efsta sæti heimslistans, hefur nú unnið ellefu leiki í röð á móti Mariu Sharapovu sem er í öðru sæti á heimslistanum. Hin 25 ára gamla Sharapova var að tapa í úrslitaleiknum á þessu móti í Miami í fimmta sinn á ferlinum.

„Það eru auðvitað vonbrigði að enda frábæran mánuð ekki betur en Serena spilaði mjög vel. Ég er viss um að við eigum eftir að mætast nokkrum sinnum aftur á þessu ári," sagði Maria Sharapova.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×