Innlent

Íbúi í Garðahrauni segir börn ekki geta leikið sér úti við óbreytt ástand

Hrund Þórsdóttir skrifar
Íbúi í Garðahrauni er afar ósáttur við frestun á lagningu nýs Álftanesvegar og segir gamla veginn bjóða hættunni heim. Börn í hverfinu geti ekki leikið sér úti, við óbreytt ástand.

Stefnt var að því að hefja framkvæmdir við lagningu nýs Álftanesvegar um Gálgahraun í lok maí, en eins og fréttastofan greindi frá í gær hefur Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, frestað undirritun samnings við verktaka og beðið um að forsendur vegarins verði yfirfarnar að nýju. Harðorð mótmæli hafa borist frá náttúruverndarsinnum sem telja að endurbyggja eigi veginn í núverandi vegstæði til að hlífa hrauninu.

Snorri Finnlaugsson, fyrrverandi bæjarstjóri á Álftanesi, segir óánægju ríkja með ítrekaða frestun á verkinu. Framkvæmdir við nýja veginn þurfi að hefjast sem fyrst.

„Afstaða bæjarstjórnar sveitarfélagsins Álftaness var alveg klár. Við setjum öryggi vegfarenda og íbúa Álftaness ofar öllu í þessu máli.“

Valgerður Sigurðardóttir býr í Garðahrauni og liggur Álftanesvegurinn um bakgarð hennar. Hún er afar ósátt við ákvörðun ráðherra.

„Hún veldur mér mjög miklum vonbrigðum, vegna þess að mér finnst ekki að ráðherra eigi að geta núna á síðustu dögum fyrir kosningar, tekið ákvörðun um að fresta slíkri framkvæmd eins og færsla Álftanesvegar er vegna þess að það býður hættunni heim,“ segir Valgerður og bætir við að vegurinn sé þröngur, umferð um hann mikil sem og hraði og að einnig þveri margir afleggjarar veginn.

Bygging húss hennar hófst árið 2008 og segir Valgerður að þá hafi skipulag gert ráð fyrir að núverandi Álftanesvegur yrði að hverfisgötu. Nú sé hann hins vegar hraðbraut inni í miðju íbúðahverfi.

„Þar af leiðandi held ég að ráðherra geri sér ekki alveg grein fyrir því þegar hann tekur ákvörðun um frestun sem þessa, í raun og veru hvað hann er að bjóða íbúum hér og börnum og barnabörnum þeirra sem búa hérna, upp á mikla áframhaldandi hættu,“ segir Valgerður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×