Í hádeginu frumsýnir Vísir fyrsta sýnishornið úr heimildarmyndinni Ölli sem fjallar um líf og leik körfuknattleiksmannsins Örlygs Arons Sturlusonar sem af flestum er talinn vera eitt mesta efni í sögu íslensks körfubolta. Örlygur Aron lést af slysförum fyrir 13 árum, þá 18 ára gamall.
Myndin rekur feril Örlygs og gefur áhorfandanum tækifæri á að kynnast þessum einstaka dreng í gegnum vini hans, þjálfara, mótspilara og ættingja. Og þá fóru kvikmyndagerðarmennirnir einnig út til Bandaríkjanna þar sem Örlygur Aron stundaði nám og spilaði körfubolta um tíma.
Það er Keflvíkingurinn Garðar Örn Arnarson sem leikstýrir myndinni en hann segist hafa viljað heiðra minningu Örlygs Arons með þessum hætti. Gerð myndarinnar hófst í febrúar á síðasta ári.
Myndin er í fullri lengd og verður sýnd í kvikmyndahúsum í haust og þá hefur Stöð 2 einnig tryggt sér sýningarréttinn á myndinni. Von er á stiklu (e. trailer) úr myndinni í júní.
Hægt verður að horfa á sýnishornið hér á Vísi á slaginu 12. Nánar um heimildarmyndina á Facebook.
Sportið á Vísi er komið á Facebook. Fylgstu með.
Sport