Handbolti

Stefán fékk leyfi hjá dótturinni og verður áfram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Vilhelm
Stefán Arnarsson hefur gert nýjan tveggja ára samning við Val og mun því áfram stýra liðinu í N1-deild kvenna. Hann ætlaði að hætta eftir nýliðið tímabil.

Liðið varð deildar- og bikarmeistari á síðustu leiktíð en tapaði fyrir Stjörnunni í undanúrslitum úrslitakeppni N1-deildar kvenna. Eftir síðasta leikinn sagði Stefán að hann þyrfti að fá leyfi dóttur sinnar til að halda áfram með Val.

„Hún gaf grænt ljós á það,“ sagði Stefán í samtali við Vísi í morgun en dóttir hans er fjórtán ára. „Hún er í fimleikum og þess vegna vildi ég bera þetta undir hana,“ bætti hann við í léttum dúr.

„Þetta hefur tekið smá tíma að ákveða mig enda var ég búinn að ákveða að hætta. En svo ákvað ég að halda áfram og var margt sem spilaði inn í þá ákvörðun.“

„En ég er jákvæður og spenntur fyrir þessu. Þetta verður gaman og við ætlum okkur stóra hluti á næsta tímabili.“

„Ég er ánægður með að Fram hafi orðið Íslandsmeistari. Þá er hægt að fara á reiðhjóli til að ná í bikarinn aftur, enda stutt á milli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×