Handbolti

Stelpurnar töpuðu stórt á móti Noregi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stella Sigurðardóttir.
Stella Sigurðardóttir. Mynd/Stefán

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta tapaði með þrettán marka mun á móti Noregi, 20-33, í Nettbuss-æfingamótinu  í Gautaborg í Svíþjóð. Íslensku stelpurnar eru að undirbúa sig fyrir umspilsleiki á móti Tékklandi en fyrri leikurinn fer fram á Íslandi um næstu helgi.

Íslenska liðið réðu ekki við Þórir Hergeirsson og stelpurnar hans í norska liðinu sem er eitt allra besta landslið í heimi. Norska liðið er reyndar bara skipað leikmönnum sem spila í Noregi en breiddin er mikil hjá Norðmönnum.  Norska liðið var með átta marka forskot í hálfleik, 18-10.

Stella Sigurðardóttir var markahæst í íslenska liðinu með fimm mörk en Karen Knútsdóttir var kosin besti leikmaður íslenska liðsins í leiknum af mótshöldurum.

Stine Bredal Oftedal og Sanne Solberg voru markahæstar í norska landsliðinu með fimm mörk hvor.

Íslenska liðið tapaði með fimm marka mun á móti Svíþjóð á föstudagskvöldið en mætir Serbíu í lokaleiknum á morgun. Noregur er búið að vinna báða leikina sína en Serbía vann 28-27 sigur á Svíþjóð fyrr í dag.

Mörk Íslands í leiknum:

Stella Sigurðardóttir 5, Rakel Dögg Bragadóttir 4, Karen Knútsdóttir 3, Hanna Guðrún Stefánsdóttir 2, Jóna Margrét Ragnarsdóttir 2, Karólína Lárudóttir 2, Arna Sif Pálsdóttir 1, Ramune Pekaskyte 1.

Stella Sigurðardóttir skoraði níu mörk á móti Svíum og hefur því verið markahæst í báðum leikjum Íslands á mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×